Það er erfitt matsatriði hvort krónan hefur orðið íslensku samfélagi fremur til gagns eða tjóns við hrun íslensks efnahagslífs, segir í skýrslu Seðlabanka Íslands um Valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

Hér á eftir er stilkað á stóru um nokkur helstu atriði hinnar umfangsmiklu skýrslu bankans, sem áhugasamir geta kynnt sér í heild sinni með því að smella hér.

“Tvennt takmarkaði skaðann af fjármálaáfallinu í tilfelli Íslands,“ segir í skýrslunni, „í fyrsta lagi féll stór hluti af kostnaðinum á erlenda lánveitendur gömlu bankanna í stað þess að lenda á innlendum heimilum, fyrirtækjum og hinu opinbera. Kostnaður hins opinbera reyndist eigi að síður með því mesta á meðal þróaðra ríkja. Í öðru lagi var skuldastaða ríkissjóðs það góð fyrir fjármálaáfallið að komast mátti hjá langvarandi skuldakreppu. Hvort var meira, tjónið sem sjálfstæður gjaldmiðill olli eða ábatinn, er erfitt matsatriði, sérstaklega þegar langtímaáhrif fjármagnshafta eru tekin með í reikninginn.“

Einnig segir að það sé verkefni framtíðarinnar að tryggja fjármálastöðugleika á Íslandi, hvort heldur innan eða utan evrusvæðisins, án þess að draga úr vaxtargetu þjóðarbúsins:

“Takist evruríkjunum og Evrópusambandinu að leysa úr núverandi vanda með viðunandi hætti er e.t.v. auðveldara að ná því markmiði innan evrusvæðisins, vegna þess að ýmis áhætta tengd gjaldmiðlinum minnkar. Ávinningurinn er hins vegar háður því að innlend efnahagsstefna einkennist af fullnægjandi aðhaldssemi, að opinberum skuldum verði haldið í skefjum, aðilar á vinnumarkaði hafi getu til að aðlagast ytri áföllum, eftirlit með fjármálakerfinu sé nægilegt og að þjóðhagsvarúðartækjum verði beitt til þess að draga úr þeirri tilhneigingu fjármálakerfisins að ýta undir sveiflur í þjóðarbúskapnum, án þess þó að skaða eðlilega framþróun efnahagslífisins.”

Samspil gengisfyrirkomulags og alvarleika fjármálakreppunnar í einstökum löndum Evrópu er óljóst, að mati skýrsluhöfunda:

“Niðurstöður tölfræðigreiningar benda til þess að efnahagssamdrátturinn hafi að jafnaði verið minni og varað skemur í ríkjum með tiltölulega sveigjanlegt gengi. Sveigjanlegt gengi virðist hins vegar hafa aukið hættu á gjaldeyris- eða tvíburakreppu (banka- og gjaldeyriskreppu). Gengissveigjanleikanum virðast því hafa fylgt bæði kostir og gallar. Viðbótaráhrif evruaðildar eru ekki tölfræðilega marktæk. Ekki virðist því hægt að draga ótvíræðar ályktanir af því hvort aðild að evrusvæðinu hafi haft bein eða óbein áhrif á dýpt og lengd efnahagskreppunnar eða hvort líklegra hafi verið að ríki lentu í banka- og gjaldeyriskreppu.”

Varðandi möguleika á einhliða upptöku annars gjaldmiðils segja skýrsluhöfundar meðal annars að þær fáu rannsóknir sem gerðar hafa verið bendi til þess “að einhliða upptaka annars gjaldmiðils skili litlum efnahagslegum árangri.”

Síðan segir:

“Þær benda jafnframt til þess að ríki sem búa við sveiflukennd viðskiptakjör, eru ekki mjög samþætt ákveðnu viðskiptalandi og hafa fjármálakerfi sem er að mestu starfrækt í innlendum gjaldmiðli séu ólíklegust til að njóta ábata af einhliða upptöku annars gjaldmiðils þar sem þau munu eiga í erfiðleikum með að mæta ytri áföllum en ábati tengdur lægri vaxtakostnaði og auknum aga í ríkisfjármálum reynist oft ekki öruggur í hendi. Þetta eru mikilvægar niðurstöður og nauðsynlegt að hafa þær til hliðsjónar áður en jafn afdrifarík ákvörðun og einhliða upptaka annars gjaldmiðils er tekin.”

“Sú ráðstöfun ein og sér að skipta út íslenskum krónum og færa bankareikninga í t.d. evru fjölgar ekki þeim evrum sem þjóðin hefur úr að spila. Í hvert skipti sem fyrirtæki eða einstaklingur færði innstæðu sína af íslenskum bankareikningi yfir á erlendan eða tæki hana út gengi á evrusjóð landsmanna. Fjármagnsflótti kæmi ekki lengur fram í breytingu á gengi gjaldmiðilsins heldur sem lækkun á lausafé innlendra bankastofnana.

Lausafjárskortur banka getur leitt til gjaldþrots þeirra. Mjög vafasamt er að Ísland fengi lausafjár- eða þrautavarafyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Evrópu ef evran yrði tekin upp einhliða. Ef hugmyndin er að taka upp einhvern annan gjaldmiðil en evru er ekki óhugsandi að hægt yrði að semja um fyrirgreiðslu fyrir íslenska banka hjá þeim seðlabanka sem gefur út gjaldmiðilinn, en það er með öllu óvíst. Fengist slík fyrirgreiðsla ekki né hlutdeild í myntsláttuhagnaði af grunnfé sem notað yrði hér á landi er ljóst að einhliða upptöku á erlendri mynt mun fylgja nokkur viðbótarkostnaður auk áhættu fyrir innlendar fjármálastofnanir vegna lausafjárviðbúnaðar í erlenda gjaldmiðlinum.

Hægt væri að draga úr ágöllum einhliða upptöku annars gjaldmiðils með tvíhliða samningi. Það þarf hins vegar tvo til og alls ekki víst að slíkt verði í boði. Eins og nú standa sakir er ljóst að engir samningar verða gerðir um upptöku evru nema í gegnum hið skilgreinda ferli Evrópusambandsins.”

Seðlabankinn ræðir það hvaða gjaldmiðil væri réttast að taka upp ef sú leið væri farin að taka upp einhliða annan gjaldmiðil og segir:

“Eðlilegt er að nálgast valið út frá því að markmiðið sé að lágmarka kostnað sem fylgir því að eiga viðskipti við önnur lönd og draga sem mest úr gengissveiflum gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Út frá þessu sjónarmiði er því nærtækast að horfa til þess hversu mikil viðskipti eru við þau myntsvæði sem koma til greina, sem til lengdar getur haft áhrif á tengsl innlendrar hagsveiflu og hagsveiflu á svæðinu. Einnig skiptir máli hversu stórt svæðið er og hversu algengt er að önnur ríki tengist því.

Ábatinn í formi stöðugra gengis verður því meiri sem fleiri gjaldmiðlar tengjast svæðinu. Hversu mikið viðkomandi gjaldmiðlar eru notaðir í uppgjöri alþjóðlegra viðskipta þjóðarinnar og hvernig samsetningu erlendra skulda þjóðarbúsins er háttað kann einnig að skipta máli. Að lokum er mikilvægt að viðkomandi gjaldmiðill sé traustur þannig að peningaleg kjölfesta sé til staðar á myntsvæðinu.

Þegar litið er til allra þessara þátta virðist tenging við eða upptaka evru augljósasti kosturinn, sé á annað borð ákveðið að tengja gengi krónunnar öðrum gjaldmiðli eða að taka hann upp. Evrusvæðið vegur langþyngst í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar og erlendum skuldum hennar og er evran algengasta uppgjörsmynt erlendra viðskipta hennar ásamt Bandaríkjadal. Evrusvæðið er jafnframt næststærsta myntsvæði heimsins á eftir því bandaríska. Því fylgir tengingu við evruna viðbótarábati, vegna þess að fjöldi annarra ríkja gerir slíkt hið sama eða reynir að draga úr sveiflum gagnvart henni. Tengsl innlendrar hagsveiflu við hagsveiflu evrusvæðisins eru hins vegar takmörkuð. Niðurstöður rannsókna benda þó til þess að slík tengsl aukist jafnan við aðild að myntbandalagi.

Sé miðað við tengsl hagsveiflunnar gætu norrænu gjaldmiðlarnir einnig komið til greina, þótt tengslin séu ekki mikil gagnvart neinum þeirra. Yrði evran ekki fyrir valinu virðist danska krónan vera vænlegasti kosturinn af norrænu gjaldmiðlunum, vegna þess að hún er fasttengd evru. Því fengist hluti af ábata þess að tengjast evrusvæðinu óbeint með tengingu eða upptöku dönsku krónunnar.”

Varðandi Maastricht-skilyrðin og möguleika Íslendinga á að uppfylla skilyrði þeirra á næstunni reifar Seðlabankinn reynslu þeirra ríkja sem nýlegast hafa gengið til liðs við ESB og segir að þótt Maastricht-skilyrðin séu mjög skýr virðist vera einhver sveigjanleiki í ákvörðunum um hvort ríki uppfylli skilyrðið um heildarskuldir hins opinbera.

“Þótt þær hafi verið umfram það sem Maastricht-skilyrðin kveða á um í nokkrum ríkjum, var talið að í öllum tilfellum myndu þær lækka til lengri tíma litið, enda hafði skuldastaða allra ríkjanna farið lækkandi í aðdraganda evruaðildarinnar. Þrátt fyrir versnandi þróun skulda hins opinbera meðal ríkja sem var veitt undanþága í upphafi er þessi sveigjanleiki enn til staðar í sáttmála Evrópusambandsins.

Þrátt fyrir að Ísland uppfylli enn ekki nema eitt af Maastrichtskilyrðunum, þ.e. skilyrðið um langtímavexti, gera áætlanir ráð fyrir að tvö þeirra, þ.e. þau sem snúa að verðbólgu og afkomu hins opinbera verði uppfyllt á allra næstu árum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að heildarskuldir hins opinbera verði komnar niður fyrir viðmiðið í náinni framtíð þótt áætlað sé að þær muni lækka frá þessu ári. Miðað við fordæmin er því ekki útilokað að Ísland gæti talist uppfylla skilyrðin um þátttöku í evrusvæðinu varðandi skuldir hins opinbera lækki þær nægilega hratt og teljist lækkunin trúverðug. Reynslan af agaleysi í opinberum fjármálum á evrusvæðinu og nýlegar breytingar á sáttmálum bandalagsins […] gætu þó gert það að verkum að framvegis verði túlkun þessa ákvæðis harðari.”

 

Sjá skýrsluna í heild.