esb-isl2Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu kemur fram að út er komin ný skýrsla um stöðu og framvindu samningaviðræðnanna um aðild Íslands að Evrópusambandinu sem utanríkisráðherra boðaði á Alþingi í umræðum um utanríkismál í febrúar síðastliðinn.

Í henni er yfirlit um hvernig haldið hefur verið á viðræðunum af Íslands hálfu, bæði innanlands og gagnvart aðildarríkjum og stofnunum ESB, frá því að Ísland sótti um og ítarlega gerð grein fyrir stöðu mála í viðræðunum nú þegar samningar eru hafnir um 4/5 allra málaflokka.

Meðal helstu atriða sem fram koma í skýrslunni eru:

  • Ísland hefur þegar afhent samningsafstöðu sína í 29 af þeim 33 efnislegu samningsköflum sem viðræðurnar snúast um og á einungis eftir að fullgera samningsafstöðu sína í fjórum köflum. Þegar öll mál eru komin upp á samningaborðið hefst lokaáfangi viðræðnanna.
  • Viðræðum er þegar lokið um 11 samningskafla t.d. um utanríkis-, öryggis- og varnarmál þar sem sérstök yfirlýsing staðfestir herleysi Íslands komi til aðildar. Viðræður standa yfir um 16 samningskafla þar á meðal mikilvæga málaflokka á borð við byggðamál, umhverfismál, orkumál og efnahags- og peningamál.
  • Samtals eiga um 200 manns víðs vegar að sæti í samningahópum Íslands. Náið samráð hefur verið haft við Alþingi, sveitarfélög, hagsmunahópa og félagasamtök. Góður andi hefur ríkt í samningaliði Íslands sem skipað er færustu sérfræðingum. Öll helstu gögn í aðildarferlinu hafa verið birt jafnóðum á vefnum viðræður.is.
  • Beinn bókfærður kostnaður við viðræðurnar nam alls 300,7 milljónum króna á árunum 2010 til og með 2012 sem er ríflega innan fjárheimilda Alþingis. Sá árangur hefur náðst með aðhaldi í ferða- og sérfræðikostnaði, og með tilfærslu starfsmanna og verkefna. Óbeinn kostnaður svo sem við þýðingar er þó nokkur.
  • Áætlað er að samanlagður IPA-stuðningur við Ísland samkvæmt landsáætlunum 2011, 2012 og 2013 nemi 6,5 milljörðum króna en stuðningurinn gerir ráð fyrir ákveðnu mótframlagi Íslands. Markmið IPA er að styrkja íslenska stjórnsýslu og hrinda í framkvæmd verkefnum um allt land á sviði atvinnu- og byggðamála.
  • Virkt samráð hefur verið haft við öll aðildarríki ESB í aðildarferlinu sem og stofnanir ESB í Brussel. Staða Íslands sem umsóknarríkis hefur einnig nýst við að gæta íslenskra hagsmuna í víðara samhengi og styrkja samskiptin við Evrópu.

Nánar má lesa um ofangreint og önnur málefni tengd viðræðunum í skýrslunni svo sem um aðdraganda umsóknar Íslands, stækkunarferli ESB, samskipti Íslands við stofnanir og aðildarríki ESB, og um upplýsingar til almennings, með því að smella hér.