Samkvæmt nýju fréttablaði Alþýðusambands Íslands hefur ASÍ undanfarið verið að skoða vaxtakostnað heimilanna, og eru niðurstöðurnar sláandi, íslensk heimili borga miklu hærri vexti en bjóðast í nágrannalöndunum.

Þar segir að „á árunum 1998–2010 voru nafnvextir af  nýjum húsnæðislánum í Evrópu skv. European Mortagege Foundation á bilinu 4-5%. Nafnvextir hér á landi (m.v. að raunvexti Íbúðalánasjóðs vegi 75% og raunvextir banka vegi 25% að viðbættri verðbólgu sl. 12 mánaða) hafa á sama tíma verði 11,7% að meðaltali. Munurinn er 7,2% stig að meðaltali og þegar gengið hefur fallið (2001, 2006 og 2008) rýkur þessi munur upp í 10-20% stig.“

Til þess að útskýra hvað þessi vaxtamunur kostar heimilin í landinu er tekið eftirfarandi dæmi:

„Skoðum dæmi af hjónum með meðaltekjur skv. upplýsingum Kjararannsóknarnefndar og Hagstofu Íslands. Annað hjónanna er í fullu starfi en hitt í 60% starfi þegar þau kaupa þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu í árslok 1997. Tekjur þessara hjóna fyrir skatta voru kr. 257.400 árið 1998 og kr. 578.000 árið 2010. Til einföldunar er gert ráð fyrir að skattbyrðin sé 30% allt tímabilið til að útiloka áhrif skattkerfisbreytinga á útreikninganna. Kaupverðið var 9,7 mill.kr. og það fjármagnað með 65% láni frá Húsnæðisstofnun og 20% láni frá banka, samtals 8,2 mill.kr. og 15% af eigin sparnaði. Lánin eru verðtryggð til 20 ára og til einföldunar eru vextir annars vegar raunvextir af nýjum lánum Íbúðalánasjóðs og meðalvextir banka og sparisjóða. Af þessum lánum er reiknuð árleg greiðslubyrði í desember, þar sem tekið er tillit til verðbólgu sl. 12 mánaða. Jafnframt er þeim verðbótum, sem leggjast á höfuðstólinn á hverju ári, bætt við hefðbundna greiðslubyrði til að auðvelda samanburð við önnur lönd. Til samanburðar er sama lán reiknað miðað við meðalvexti á Evrusvæðinu.“

Þetta leiðir í ljós að „himinn og haf skilur að íslensku og evrópsku hjónin; þau evrópsku greiða á bilinu 5-800 þús.kr. á ári en þau íslensku borga 1-2 milljónir króna á ári. Ef þessi munur er reiknaður sem hlutfall af tekjum þeirra eftir skatta þurfa íslensku hjónin að eyða 18% meira af ráðstöfunartekjum sínum í greiðslur af húsnæðislánum en þau evrópsku.“

Ólafur Darri, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, sem skrifar undir fréttablaðið, segir þetta vera ólíðandi stöðu fyrir heimilin í landinu. Þá bætir hann við í lokin að „ef við viljum tryggja okkur sambærilega vexti og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við verðum við að tryggja hér sama stöðugleika og í þeim löndum. Það gerum við ekki nema með stöðugri gjaldmiðli en við búum við í dag og vandaðri hagstjórn.“

Hér má lesa fréttabréf ASÍ: http://www.asi.is/PortalData/1/Resources/frettabref/FB_0112_Er_ekki_r_tt_a__banna_ver_tryggingu.pdf