Bjorn_Gunnar_OlafssonSkýrsla Hagfræðistofnunar er góður grunnur fyrir umræðu um ESB og aðildarferli Íslands fram að þessu. Eitt af því sem vantar er heildstæð umfjöllun um EES samninginn og mismuninn á fullri ESB aðild og núverandi EES aðild. Vonandi verður úr þvi bætt í skýrslu Alþjóðastofnunar. Af 27 köflum sem búið er að opna/loka eru 18 EES tengdir. Þrír óopnaðir kaflar falla að mestu undir EES. Samtals eru kaflarnir 33.

Aðild Íslands að EES og innri markaði ESB hefur víðtæk áhrif á nær alla þætti þjóðlífsins og má búast við enn meiri áhrifum í framtíðinni svo sem vegna víðtækra reglna um bankaeftirlit og fjármálastöðugleika sem eftir er að innleiða hér ásamt nýrri innistæðutryggingu. Þótt landið sé þannig að verulegu leyti þegar í ESB telja leiðtogar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Auk þess staðhæfa þeir fyrir hönd ESB að ekkert sé um að semja við Íslendinga og samningsferlið því aðeins aðlögun að reglum ESB. Hér er horft fram hjá því að verulegur hluti af hinni ógnvænlegu aðlögun síðustu ára er aðlögun að reglum EES sem verður viðfangsefni hérlendis hvort eð er svo langt sem séð verður. Það er ekki ómögulegt að vilji flokksþings Sjálfstæðisflokksins víki fyrir þjóðarvilja. Það er ómögulegt og órökrétt að telja allt til foráttu fullri aðild að ESB þegar við erum þegar með annan fótinn í sambandinu gegnum EES (þar sem Norðmenn ráða reyndar öllu sem þeir vilja).

Helsta breytingin frá EES í fulla ESB aðild er

1) Ísland verður þátttakandi í æðstu stjórnsýslu ESB og Evrópuþinginu.

2) Ísland getur tekið þátt í myntsamstarfi ESB fyrst í ERM II svo í evru.

3) Ísland fellur undir byggða-, landbúnaðar- og fiskveiðistjórnunarkerfi ESB.

Varla telst það ágalli að eignast setu í æðstu stjórn sambandsins eða fá rödd á Evrópuþinginu. Sjálfstæðið veitir okkar fámennu þjóð þau einstöku réttindi að fá sæti við háborðið og þar með að fá meiri áhrif en nokkur stórborg, hérað eða sambandsríki innan þjóðríkja ESB getur vænst að fá þótt margfalt fjölmennari sé.

Engin skynsamleg rök hafa verið færð fyrir því að gallar myntsamstarfsins séu meiri en kostirnir. Reynsla Íslendinga af rekstri eigin myntar í yfir 90 ár er þannig að varla nokkur þjóð myndi vilja feta í þau fótspor.

Byggða- og landbúnaðarstefnan getur aðeins bætt hag neytenda, eflt landsbyggðina og aukið velferð hérlendis. Fráleitt er að taka hag framleiðenda fram yfir hag neytenda í aðildarviðræðum. Frjálsari innflutningur landbúnaðarafurða bætir verulega lífskjör hér á landi. Fiskveiðimálin er það sem helst getur verið erfitt að semja um en vísbendingar eru um að viðunandi lausn finnist á þeim málum, en fyrst þarf að vinna vandaða heimavinnu áður en samningsafstaða er mótuð sem verndar hagsmuni eiganda kvótans, það er þjóðarinnar.

Eftir að þjóðaratkvæði hefur sýnt meirihlutavilja til að klára samninga við ESB gæti núverandi ríkisstjórn, ef hún sæti áfram, fyrst klárað þá kafla sem tengjast EES og unnið jafnframt að eflingu gjaldmiðilsins og afnámi hafta. Þetta eru nauðsynleg verkefni til að bæta samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja á hinum sameiginlega markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Björn Gunnar Ólafsson, stjórnmálahagfræðingur