Í grein dagsins fjallar Bergur Ebbi Benediktsson um fólksfjölgun, fæðuöryggi og þátttöku í heimsmálunum.

 

Þann 17. október sl. birti Fréttablaðið forsíðufrétt með fyrirsögninni: „Telur Íslendinga hafa forskot í fæðukreppu“. Þar er haft eftir „sérfræðingi“ að þekking Íslendinga á landbúnaði við erfiðar aðstæður geti gegnt stóru hlutverki við að leysa matvælakreppu sem er yfirvofandi í heiminum.

Ég hef enga ástæðu til að ætla að Fréttablaðið hafi rangt eftir og tek ég því fram að ég geri ekki athugasemd við fréttina sem slíka. Því síður hef ég ástæðu til að ætla að nokkrir sérstakir hagsmunir liggi að baki þessari skoðun erlenda sérfræðingsins (samkvæmt greininni er hann sérfræðingur í „miðlun vísindalegrar þekkingar“). En hitt fullyrði ég þó að fréttin um að „Íslendingar hafi forskot í fæðukreppu“ gengur nærri því að vera skólabókardæmi um popúlisma.

Greinum málið.

Úti í heimi er risastórt vandamál, jafnvel stærra heldur en í James Bond myndum því þetta vandamál varðar sjálft fæðuöryggi heimsins. Þetta vandamál er að vísu ekki til en það er ekki óhugsandi að það gæti orðið til í framtíðinni. Þá munu Íslendingar uppskera því þeir hafa lausn á vandamálinu og það verður útflutningsafurð og allir verða ríkir. Þegar allir aðrir eru búnir að skíta á sig og eru svangir þá munum við vera í góðum málum og hjálpa hinum.

Það virkar ekki svoleiðis. Hvorki í þessu tilfelli né í nokkru öðru sambærilegu.

Þann 31. október á þessu ári hyggjast Sameinuðu þjóðirnar útnefna sjö milljarðasta íbúa mannkyns. Í tilefni af þessu má fara yfir alls kyns tölfræði. Það eru tólf ár síðan mannkynið var sex milljarðar og 24 ár síðan það var fimm milljarðar. Af því má strax sjá að þó að mannkyninu fjölgi gríðarlega þá stendur vöxturinn í stað og spáð er því að það taki 15 ár fyrir fyrir mannkynið að verða átta milljarðar og hefur vöxturinn því þegar náð hámarki sínu. Það sem vekur einna mesta eftirtekt við þetta er hversu vanmáttug við erum að spá fyrir um áhrif fólksfjölgunar á lífsskilyrði mannkyns. Eftir velmegunarár 7. áratugarins sem leiddi til mikillar fólksfjölgunar spáðu því margir að mannkyninu gæti ekki fjölgað áfram vegna þess að maturinn myndi ekki duga. Síðan þá hefur afkastageta landbúnaðar í heiminum fjórfaldast þó að íbúafjöldi jarðar hafi aðeins tvöfaldast. Hlutfallslega hafa líklega aldrei jafn fáir búið við skort eins og nú. Að líta öðruvísi á málið er í raun þversögn í sjálfu sér enda fjölgar mannkyninu einmitt vegna þess að það er ekki að drepast nógu mikið.

Og nú er bara spurning á hvað við viljum veðja. Viljum við veðja á að loftlagsbreytingar og náttúruhamfarir beini mannkyninu inn á brautir „fæðukreppu“ vegna þess að við getum mögulega haft einhverjar lausnir við slíku vandamáli vegna þess að við þjáðumst í „sex hundruð sumur“? Það er hugmynd. Við getum líka beðið pollróleg þar til olíubirgðirnar þverra því þá munum við verða moldrík vegna yfirráða okkar yfir Drekasvæðinu (eins og erlend hernaðarríki myndu ekki taka það sem þeim vantaði ef heimurinn væri komin á heljarþröm vegna orkukreppu). Eða eigum við að veðja á að allt vatn klárist því þá munum við geta selt þyrstum útlendingum vatnið okkar og grætt mikið?

Eða eigum við að kæfa þessar hugmyndir í fæðingu vegna þess að þær bera merki minnimáttarkenndar, draumóra og heimsku, og ættum við mögulega að hætta að túlka allar staðreyndir okkur í vil. Sú staðreynd að mannkynið telur sjö milljarða gerir Íslendinga hvorki betri né sérstakari heldur gerir það okkur aðeins minni, það þýðir bara að núna er soldið meiri heimur fyrir utan bæjargarðinn og meira sem taka þarf tillit til. Og nú veit ég ekki með ykkur en ég hef sjálfur ekki áhuga á að bíða eftir því að heimurinn farist því miklur fremur vil ég vera með og taka þátt í honum.