Í grein dagsins spyr Íris Björg Kristjánsdóttir, mannfræðingur, hvort Evrópusambandið snúist bara um landbúnað, en að hennar mati snýst ESB um svo miklu meira, þrátt fyrir að landbúnaður og sjávarútvegur skipta miklu máli. Hér fyrir neðan má lesa greinina í heild sinni.

Í hverju felst andstaða gagnvart mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu og hvaða rök liggja þar að baki? Ég skil að sumu leiti ótta bænda við þá óvissu sem felst í breytingunum sem óneitanlega verða ef Ísland gengur í Evrópusambandið.

Ein af megináherslum Evrópusambandins er að vinna gegn hverskonar mismunum. Íslenska ríkið borgar háar fjárhæðir til landbúnaðar á hverju ári í formi niðurgreiðslna eða styrkja. Meðal verkefna íslensku samninganefndarinnar hjá Evrópusambandinu er að gera grein fyrir því hvers vegna við styrkjum eina fagstétt umfram aðra því niðurgreiðslur til bænda fela í sér mismunun sem við þurfum að gera grein fyrir og réttlæta, ef við ætlum að gerast aðilar að sambandinu.

Ef okkur tekst það hafa bændur líklega ekkert að óttast og ef okkur tekst það ekki er harla ólíklegt að meirihluti þjóðarinnar samþykki samninginn sem borinn verður á borð.

Hið sama á við um sjávarútveginn. Það skiptir miklu máli að samninganefndin nái góðri niðurstöðu sem við getum kosið um, þegar þar að kemur. En þangað til ættum við að nota tímann aðeins betur til að skoða önnur mál sem hafa áhrif á líf okkar og samfélag við mögulega aðild.

Frá 1994 hefur Ísland innleitt um 70% af tilskipunum Evrópusambandins. Þessar tilskipanir eru ekki bara pappírar og skriffinska heldur bæta þær íslenska stjórnsýslu á sama tíma og þær bæta réttindi fólks í landinu.

Lítið hefur verið fjallað um þá miklu áherslu sem Evrópusambandið leggur á jafnrétti, mannréttindi og banni við hverskonar mismunun. Annað sem má nefna eru tilskipanir á sviði vinnuréttar þar sem undir heyra til að mynda upplýsingaskylda vinnuveitenda, jafn aðgangur að vinnu, jafnrétti til launa svo fátt eitt sé nefnt. Ekki má gleyma áherslunni á umhverfismál innan Evrópusambandsins.

Andstaðan við aðildarviðræðurnar er að sumu leiti skiljanleg en að öðru leiti alveg óskiljanleg. Hvernig stendur til dæmis á því að vinstri flokkur sem hefur jafnrétti, mannréttindi og sjálfbærni að leiðarljósi er svona andsnúin aðild? Ég skil enn síður andstöðu Sjálfstæðisflokksins og finnst hún fullkomnlega órökrétt, nema að því leiti að hverskonar pólitísk handstýring á samfélaginu verður erfiðari. Möguleikar ungs fólks og framtíð eru án efa fólgnir í samvinnu við Evrópuþjóðirnar.

Að lokum vil ég taka það fram að ég er hlynnt mismunun sem felst í niðurgreiðslum til bænda og að stéttin búi við viðeigandi lífs- og starfsskilyrði. Það rúmast vel innan aðildar, enda veit ég að samninganefndin okkar er að vinna gott verk. Í hvers kyns breytingum felast ný tækifæri og við þurfum að heyra meira af þeim.