Í Fréttablaðinu í dag, þann 17. nóvember, birtist grein eftir Jón Orm Halldórsson, dósent við Háskólann í Reykjavík. Í greininni fjallar hann um Evrópusamrunann, þann heimssögulega  árangur sem náðst hefur og mikilvægi Evrópusambandsins, þrátt fyrir erfiða tíma.

Í greininni segir meðal annars:

„ESB átti að binda saman kjarnaríki Evrópu. Það átti að tryggja batnandi lífskjör og sem jafnasta dreifingu þeirra með því að auka samkeppnishæfni atvinnulífs í Evrópu samhliða samfélagslegum áherslum. Tilraunin var flókin en hún var studd af einu sterkasta lögmáli efnahagslífsins. Því að opin viðskipti á milli landa auka skilvirkni og velmegun. Og öðru lögmáli sem fær nú aukna athygli. Jöfnuður og lýðræði stuðla ekki aðeins að friði í mannfélaginu heldur líka að efnahagslegri velmegun.“

„Þeim tilgangi ESB að binda saman kjarnaríki Evrópu og tryggja frið, velmegun, lýðræði og velferð var greinilega náð. Evrópusambandið varð að táknmynd og holdtekju velmegunar, velferðar og mannréttinda fyrir fólk í einræðisríkjum álfunnar. Fyrst á Spáni, í Portúgal og Grikklandi sem var veitt innganga í ESB þrátt fyrir kostnað sem nú er að fullu að koma í ljós. Svo í löndum sem losnuðu undan kommúnisma. Þau fengu líka inngöngu þrátt fyrir efnahagslegan og félagslegan kostnað fyrir sum ríki álfunnar.“

„Vilja menn reyna þetta hver fyrir sig undir merkjum þjóðernis og ímyndana um fullveldi? Sumir. Aðrir vilja vera með sínu skyldfólki en þó svolítið sér. Enn aðrir vilja dýpka samrunann. Sumir mikið. Viðfangsefnið nú er að þróa Evrópusamband sem þjóðir eru í á talsvert ólíkum forsendum. En eru í af fullri sannfæringu. Evrópa er opið samfélag og opið hagkerfi ólíkra og sjálfstæðra ríkja. Erfið staða í bili en einstæður styrkur í lengd.“

Greinina má lesa í heild sinni hér: http://www.visir.is/spurning-hamlets/article/2011711179971