Húsnæðislánareiknivélin okkar á http://lan.jaisland.is/hefur vakið mikla athygli og eðlilega spyr fólk sig hvort það geti staðist að það sé svona mikill munur á kjörum á Íslandi og í Evruríkjunum.  Stutta svarið er já, munurinn hleypur á milljónum fyrir flest heimili. En til að svara betur og útskýra hefur  Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðingur og stjórnarmaður hjá Já Ísland,  tekið að sér að svara nokkrum spurningum sem hafa komið upp í tengslum við reiknivélina í umræðunni síðustu daga.

Sp.:
Ef þetta er erlent lán kemur þá ekki gengisfellingin inn í ?

Svar:
Þetta miðast við að lánið væri í krónum en með skilmálum erlendra lána.
Sp.: Eru vextir ekki mjög misjafnir innan ESB?

Svar:
Jú, en þetta er miðað við meðaltal. Í Danmörku er núna hægt að finna breytilega húsnæðisvexti upp á 0,87%, óverðtryggt!

Sp.:
Hvað um Grikkland og Spán. Eru ekki vextir miklu hærri þar?

Svar:
Örugglega, en það er miklu nær að við berum okkur saman við Norðurlöndin, Holland og Þýskaland, sem eru okkar nágrannalönd.

Sp.:
Hér er verðbólga miklu meiri. Kemur það ekkert inn í?

Svar:
Jú, vélin sýnir bæði óþægindin af hærri raunvöxtum og meiri verðbólgu.

Sp.:
Er ekki villandi að breyta verðtryggðum krónum í venjulegar krónur? Svo látið þið eins og evran hafi ekkert breyst í krónum.

Svar:
Reiknivélin sýnir tvennt. Annars vegar sýnir hún mikla verðbólgu á Íslandi og hins vegar háa vexti. Evruútreikningurinn sýnir einfaldlega hvernig lán sem tekið hefði verið í íslenskum krónum með þeim kjörum sem buðust á evrusvæðinu stæði núna. Íslendingar þurfa bæði minni verðbólgu og lægri vexti þannig að lífskjör hér verði sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum, t.d. Norðurlöndunum , Hollandi og Þýskalandi.

Sp.:
Eru forsendur trúlegar? Hver vann þetta?

Svar:
Það var vanur forritari sem vann þetta með okkur en ég og fleiri hafa farið yfir niðurstöður og þær stóðust í þeim tilvikum sem ég skoðaði.

Meginatriði er að vegna þess hve krónan er léleg er verðbólgan miklu meiri hér en í nágrannalöndum. Auk þess er álag vegna smæðar og óstöðugleika gjaldmiðilsins upp á 2-5% í raunvöxtum. Þetta þýðir að Íslendingar þurfa að borga til baka 2,5-3 hús meðan í nágrannalöndum þarf að borga til baka 1,5

Þá bentum við áhugasömum á að hægt er að lesa sig til um fyrirvara og forsendur reiknivélarinnar hér neðar og einnig á síðu reiknivélarinnar:

Samanburðurinn sem hér birtist hefur það markmið að gefa fólki glögga mynd af því hver kostnaðarmunurinn er á að taka húsnæðislán á Íslandi og í Evruríki. Erlenda samanburðarlánið er óverðtryggt lán eins og tíðkast víðast hvar í Evrópu. Allt efni á síðunni er sett fram samkvæmt bestu vitund Já Ísland og er ætlað til upplýsingar og fróðleiks en er ekki grundvöllur viðskipta.

Íslenskir verðtryggðir vextir:
Reiknivélin stingur sjálfkrafa upp á vöxtum á lánum Íbúðalánasjóðs. Heimild: Seðlabanki Íslands.
Fyrir júní 2004 veitti Íbúðalánasjóður lán í formi húsbréfa sem lántaki seldi á markaði, stundum á yfirverði en oft með afföllum. Ef afföllin voru 3% þá fékk lántakinn um 970 þúsund krónur afhentar eftir að hafa skrifað undir 1 milljón króna lán. Ef yfirverð var 3% fékk lántakinn afhentar um 1.030 þúsund krónur gegn því að skrifa upp á 1 milljón króna lán. Ekki er tekið tillit til affalla og yfirverðs í þessum útreikningum.

Óverðtryggðir vextir Evrulanda:
Reiknivélin stingur sjálfkrafa upp á vegnu ársmeðaltali húsnæðisvaxta í Evrulöndum (vegið eftir landsframleiðslu landanna). Upplýsingar um vexti í einstaka löndum eru fengnar af hypo.org.
Rétt er að hafa í huga að húsnæðislán í Evrópu eru yfirleitt til styttri tíma en þau íslensku. Skilgreining á ‘föstum vöxtum’ getur verið misjöfn milli landa. Stundum eru vextir fastir út lánstímann, en oft eru vextir fastir til nokkurra ára og endurskoðaðir reglulega á lánstímanum.

Greiðslur:
Ef plús tala er í mismun merkir það að meira hefur verið greitt af íslenska láninu sem nemur upphæðinni.

Eftirstöðvar:
Ef plús tala er í mismun merkir það að íslenska lánið er hærra sem nemur upphæðinni. Ógreiddar verðbætur eru verðbætur sem hafa safnast á lánið á lánstímanum og eftir er að greiða. Eftirstöðvar alls eru því eftirstöðvar af upprunalegum höfuðstól plús ógreiddar verðbætur.