Nei-sinnar fluttu inn sænskan hagfræðing, Stefan De Vylder, til þess að halda fyrirlestur um gjaldmiðiilsmál, út frá punktinum;  Evra vs. Króna.

Reyndar var þetta ekki fyrirlestur í eiginlegri merkingu, heldur virðist Stefan hafa fengið 10 spurningar frá…sennilega Heimssýn (veit það þó ekki 100%), til þess að svara.

Það sem sló mig mest var að í erindi sínu viðurkenndi Stefan nánast algera vanþekkingu á íslenskum efnahagsmálum. Og ekki heyrðist mér hann hafa haft fyrir því að kynna sér þau heldur! Þetta hlýtur að vera athyglisvert.

Hann byrjaði einnig á sögulegum rangfærslum varðandi Evru-umræðuna í Svíþjóð, en þar var gengið til atkvæða um Evruna árið 2003. Þá bjó ég í landinu og fylgdist grannt með þessari umræðu, m.a. sem fréttaritari RÚV í landinu (þó áður en ég gekk í Evrópusamtökin og settist í stjórn þeirrra,til að forðast allan misskilning!)

Stefan sagð að þá hefðu „allir verið með“ Evrunni. Það er hinsvegar ekki rétt. Að minnsta kosti tveir ráðherrar í ríkisstjórn Görans Perssons voru algerlega á mótið aðild að Evrunni. Þetta voru þau Margareta Winberg, sem var hvorki meira né minna en aðstoðar-forsætisráðherra landsins!

Hinn ráðherrann var Leif Pagrotsky, þáverandi viðskiptaráðherra landsins.  Dagblaðið Daily Telegraph nefnir í grein frá þessum tíma að fimm ráðherrar hafi verið á móti aðild, en mest bar á þessum tveimur sem ég nefni hér.

Í raun er það mjög merkilegt að Stefan hafi skautað yfir þetta í erindi sínu, því það gefur í raun alranga mynd af umræðunni sem átti sér stað.

Annað sem einnig gefur ranga mynd af umræðunni er sú staðhæfing Stefans að enginn sé að ræða Evruna í Svíþjóð í dag. Það er einfaldlega ekki rétt. Núverandi fjármálaráðherra landsins, Anders Borg, sagði í frétt í stærsta dagblaði Svíþjóðar, Dagens Nyheter, þann. 7.júni að það væri gott fyrir Svíþjóð að stefna að upptöku Evrunnar!

Þá er það spurnngin: Hvaða dagblöð hefur Stefan verið að lesa, eða ekki?

Til viðbótar vil ég einnig nefna að einn ríkisstjórnarflokkanna í borgaralegu blokkinni sem nú stjórnar Svíþjóð, Þjóðarflokkurinn (Folkpartiet), vill að Svíþjóð taki upp Evruna! Á næstunni  mun flokkurinn standa fyrir málþingi um Evruna í Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö. Er þá ekkert verið að ræða Evruna í Svíþjóð?

Fylgist Stefan ekki betur með en þetta?

Þá fór Stefan einnig út í umræðuna um upptöku norsku krónunnar, en sló því þá mest upp í grín og sagði okkur (Íslendingum) að bíða með að taka hana upp þangað til við værum búin að finna olíu í kringum landið!

Stefan veit greinilega ekki að Norðmenn hafa algerlega afskrifað þann möguleika að Íslendingar taki upp norsku krónuna! Það gerði m.a. forsætisráðherra landsins, Jens Stoltenberg, í lok október 2008!

Stefan kom ekki með neinar lausnir á málum okkar Íslendinga, nema kannski það að gera ekki neitt. Enda, eins og áður kom frem þekkir hann nánast ekki neitt til íslenskra efnahagsmála.

Við þessi orð verða Nei-sinnar glaðir, þeir vilja nefnilega ríghalda í gjaldmiðil sem enginn reiknar með, er haldið í „öndurnarvél“ (gjaldeyrishöftum) og enginn veit hvernig reiðir af þegar „öndunarvélin“ verður tekin úr sambandi! Hvenær sem það nú verður!

En vandamálið er þetta(og er enn óleyst): Íslendingar búa við óviðunandi ástand í gjaldmiðilsmálum, sem enginn, ekki einu sinni Seðlabankastjóri, veit hvernær tekur enda. Það hlýtur að vera dapurlegt!