Í grundvallaratriðum ganga hlutirnir fyrir sig samkvæmt áætlun í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins segir Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, í viðtali við vefritið Euractiv. Hann hefur rætt við forsætisráðherra Íslands um aukna þátttöku viðræðuríkja í stefnumótun Evrópusambandsins.

„Á formennskutímabili Kýpur ættu sem flestir kaflar að verða opnaðir. Jafnvel þótt svo fari ekki verða spilin að minnsta kosti lögð á borðið. Það ætti að skýra stöðuna á öllum sviðum, þar á meðal í viðkvæmum málefnum eins og í Kafla 13 (fiskveiðar) fyrir þingkosningarnar sem haldnar verða í vor á Íslandi,“ segir Füle.

Fram kemur að kreppan á evrusvæðinu hafi breytt því hvernig sambandið nálgast stækkunarmál.

„Við erum að íhuga hvernig best verði hægt að aðlaga stækkunarferlið þannig að það horfi ekki aðeins til fortíðar þegar aðildarríkin þurftu að innleiða sína löggjöf,“ segir Füle. „Þvert á móti viljum við tengja ferlið eins og hægt er þeim vandamálum og verkefnum sem við erum nú að fást við. Kjarni málsins er sá að viðræðuríkin ættu ekki aðeins að fá hugmynd um það hver væru helstu verkefnin fyrir nokkrum árum heldur ættu þau eftir því sem þau innleiða löggjöfina smám saman að verða þátttakendur í því að móta þær ákvarðanir sem teknar eru innan Evrópusambandsins.“

„Þetta má orða einfaldlega þannig: Viðræðuríkin ættu ekki að frétta af nýjustu þróun mála og ákvörðunum ESB í gegnum Financial Times heldur ætti að eiga sér stað samræða um fjármálaleg og efnahagsleg vandamál í samtímanum jafnhliða aðildarviðræðunum.“

Füle er spurður hvort viðræður í þessum anda hafi þegar átt sér stað við leiðtoga einhverra viðræðuríkjanna?

„Já, ég hef rætt þetta mál, til dæmis, við forsætisráðherra Íslands, og þar snerust viðræðurnar um tiltekin mál.“

Í viðtalinu kemur einnig fram hjá Štefan Füle að þrátt fyrir efnahagsvandann á sunnanverðu evrusvæðinu hafi ekkert dregið úr áhuga Evrópusambandsins á stækkunarviðræðum. „Skýringin er mjög einföld,“ segir Füle. „Hér er um að ræða stofnun sem í raun er með stækkunina sem hluta af sínu genamengi. Minnumst upphafs ESB – upphaflega voru fáein stofnríki og síðan hefur þeim smám saman fjölgað. Kjarninn í sögu ESB liggur ekki aðeins í dýpkandi samruna heldur einnig í stækkun. Í raun er ESB aðeins að fylgja eftir sinni eðlilegu þróun. Hins vegar hefur nokkuð hægt á stækkunarferlinu og það þarfnast nú meiri fyrirhafnar og frumlegrar hugsunar en áður.“

Ég held líka að það mundi ekki bæta stöðuna ef við sinntum ekki stækkunarmálum og nágrönnum okkar heldur litum aðeins inn á við til málefna sambandsins þótt þar sé við erfið mál að fást og ekki ætti að gera lítið úr þeim. Það væru mikil mistök og ESB mundi gjalda þess. En stækkuninnni hafa alltaf fylgt góðar fréttir.“