Grein dagsins hjá Já Ísland skrifar Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Þar veltir Guðmundur þeirri umræðu fyrir sér sem hefur verið áberandi undanfarið, til dæmis í kringum Kanada og upptöku Kanadadollars, og hvað skuli gera í gjaldmiðlamálunum. Hér að neðan má lesa greinina í heild sinni.

Stjórnmálaumræðan hér á landi birtist okkur í hverju furðuupphlaupinu á fætur öðru. Hingað til hefur það verið talið eftirsóknarvert að vera meðal hinna Norðurlandanna, enda þau talin fordæmi þess samfélags og hagkerfis sem önnur lönd vilja ná. Þar hefur ríkt mestur friður og samfélagslegt öryggi fyrir fjölskyldur.

Þess vegna verður maður ætíð undrandi þegar menn mæta í fjölmiðla og segja að það sé eftirsóknarvert fyrir okkur að hverfa frá samstarfi okkar við nágrannalönd okkar og nálgast Kanada eða jafnvel Kína. Taka upp efnahagssamskipti við þá og kanadískan dollar, því við eigum svo mikla samleið og vinasamskipti við Kanada. Um 5% af utanríkisviðskiptum Íslands eru við Kanada en um 70% við Evrópulönd.

Sé litið á einfalda sviðsmynd sem við öllum blasir, er daglegt flug til allra Norðurlandanna og um 5 – 7 flug á hverjum degi allt árið til Kaupmannahafnar, auk þess 3 – 5 flug til Þýskalands, sama á við um Bretlandseyjar. Dagleg flug eru til Frakklands, Ítalíu og Spánar. Ekkert reglulegt flug er til Kanada.

Við hjónin komum bæði úr stórum fjölskyldum, auk þess að ég á tæplega 40 vinnufélaga og hitti reglulega annan eins fjölda á fundum og ráðstefnum, þannig að ég þekki prýðilega til hjá liðlega hundrað fjölskyldum. Við þekkjum marga sem hafa farið til framangreindra landa til náms, í frí eða til þess að heimsækja ættingja, en við þekkjum engan sem hefur farið til Kanada.

Ísland glímir við nokkur stór vandamál, flest tengd ónýtum gjaldmiðli, sem stöðugt tapar verðgildi sínu. Hér er verðbólgan að jafnaði a.m.k. tvöföld við það sem er í nágrannalöndum okkar. Krónan hefur kallað yfir okkur gjaldeyrishöft sem valda stígandi og umfangsmeiri vanda. Það liggur fyrir að við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að komast út úr gjaldmiðilshöftunum án aðstoðar.

Við erum þjóð sem flytur inn og út sem nemur um 40% af landsframleiðslu og erum þar af leiðandi mjög háð því hvernig efnahagssveiflan er í viðskiptalöndum okkar. Evran er helsta utanríkisverslunarmynt Íslendinga og það myndi kalla á minnstu vandamálin ef við sveifluðust með evrunni. En þar til viðbótar eru mestar líkur á að þar takist að ná samningum um stuðning við að halda krónunni innan ákveðinna vikmarka.

Krónan yrði trúverðugri og stöðugri strax við inngöngu í ERM II og svipuðum samning og t.d danska krónan býr við. Með þeim samning breytist gjaldmiðill okkar í alvöru mynt sem væri hvarvetna gjaldgeng. Vextir myndu lækka og verðtrygging yrði úr sögunni og við gætum reiknað með aukinni erlendri fjárfestingu til landsins.

Stærsta vandamál okkar eru öfgakenndu upphrópanirnar sem eru áberandi í umræðunni. Í nær hverjum fréttatíma er mættur fulltrúi einhvers hagsmunahóps með furðulegar fullyrðingar og maður verður endurtekið undrandi yfir því hvers vegna fréttamaðurinn spyr ekki viðkomandi um hvað hann eigi við.

Þessi viðtekna umræðuhefð hefur skapað tortryggni, vantraust og óbilgirni. Þessu þarf að snúa við. Það er hægur vandi að ráðast að þeim vanda sem við erum að glíma við. Hér er eitt besta velferðarkerfi í heimi, andrúmsloftið er hreint og öryggi meira en þekkist víðast hvar annars staðar. Hér ríkir mikið frjálslyndi, virðing fyrir mannréttindum og jafnrétti. Og hér eru auðvitað náttúruauðlindir á borð við fisk, orku og náttúru sem geta tryggt þjóðinni efnahagslegt sjálfstæði.

Þeir sem hæst töluðu um sterka lagalega stöðu landsins og börðust fyrir dómstólaleið með Icesave-deiluna og létu sem Íslendingar væru með unnið mál í höndunum, eru þeir sömu og berjast hvað harðast gegn öllum breytingum í okkar samfélagi. Berjast gegn breytingum á Stjórnarskrá og að kannað verði til hlítar hvaða samningar Íslandi standi til boða.

Nú óttast þeir að þurfa að horfast í augu við afleiðingar eigin gjörða. Þarna fara forsvarsmenn sérhagsmunahópa sem óttast að missa spón úr aski sínum yfir til almennings, takist að breyta um mynt, og reyna nú sem fyrr að bregða fæti fyrir alla rökræna umræðu og ferli sem á endanum á að skila sér í aðildarsamningi sem eðlilegt væri að þjóðin fengi sjálf að meta.