Spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu er komin á dagskrá. Hún snýst um framtíðina og þá stefnu sem Íslendingar vilja taka þegar þeir móta eigin framtíð. Þetta er sennilega eitt stærsta og mikilvægasta málið sem þjóðin þarf að taka ákvörðun um og niðurstaðan mun hafa langvinn áhrif.

STERKARA ÍSLAND – þjóð meðal þjóða er félag þeirra sem vilja vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu með því að stuðla að hagstæðum aðildarsamningi og upplýstri umræðu um aðildina. Félagið er opið öllum þeim sem styðja þessi markmið og eru reiðubúnir til þess að víkja öðrum ágreiningsefnum til hliðar á þessum samstarfsvettvangi.

Við ætlum okkur að skapa vettvang og skilyrði fyrir umræður, samskipti og fræðslu fyrir félagsmenn og aðra þá sem vilja taka þátt með okkur á ofangreindum forsendum. Í þessum tilgangi höfum við komið okkur fyrir í Skipholti 50a í Reykjavík en þar er ágætis funda- og skrifstofuaðstaða.

Þar verður vettvangur fyrir fundi, spjall og fræðslu en við erum að undirbúa dagskrá næstu mánaða. Rík áhersla verður lögð á umræðu félagsmanna um málefnið og sama máli gegnir um vefsamfélagið okkar hér á Sterkaraisland.is. Þar geta allir verið jafngildir í umræðunni, ungir og gamlir, konur og karlar, borgarbörn og sveitamenn, landkrabbar og sjómenn og loks allir Íslendingar hvar sem þeir eru staddir í heiminum.

Það geta allir sem skrá sig hér á vefinn skrifað greinar, athugasemdir og tjáð sig í málefnahópunum. Endilega takið þátt, spyrjið spurninga og deilið fróðleik.