Magnús Orri Schram þingmaður Samfylkingarinnar og Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur birta hvor sína grein í Fréttablaðinu í dag í tilefni af þeim þráláta klofningi sem er innan þingsflokks Vinstri-grænna. Guðmundur Andri bendir á að tveir af þeim þremur einstaklingum úr stjórnarliðinu sem ekki greiddu atkvæði með fjárlagafrumvarpinu séu fremur þingmenn Heimssýnar, samtaka Evrópsambandsandstæðinga, en Vinstri-grænna og að sá þriðji sé smátt og smátt að hafa þarna vistaskipti.  Guðmundur Andri minnir þremenningana á að nýlega hafi flokkur Vinstri-grænna ítrekað „þá afstöðu sína að hagsmunum Íslendinga væri betur borgið utan þessa bandalags um leið og Flokksráð ítrekaði „mikilvægi þess að niðurstaða þess umsóknarferlis sem nú stendur yfir verði lögð í dóm þjóðarinnar“.“

Af sama tilefni upplýsir Magnús Orri í sinni grein að þingmenn Samfylkingarinnar, ekkert síður en þingmenn Vinstri-grænna, hafi á undanförnum misserum þurfa að gera málamiðlun í ýmsum málum í stjórnarsamstarfinu. Samstarf þessara tveggja flokka grundvallist hins vegar ekki á skoðunum einstaklinga á einstökum málaflokkum heldur á stjórnarsáttmálanum sem varð til þegar ríkisstjórnarsamstarfið hófst. Í framhaldi skrifar Magnús Orri:

„Í stjórnarsáttmálanum var kveðið á um að sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu og bera síðan samninginn undir þjóðaratkvæði. Öllum var það ljóst að það var lykilforsenda Samfylkingar til að taka þátt í myndun þessarar ríkisstjórnar. Stjórnarsáttmálinn var síðan samþykktur í viðeigandi stofnunum hjá báðum flokkunum. Að okkar mati var löngu orðið tímabært að kanna möguleika á hagstæðum samningum við ESB um sjávarútveg og landbúnað, um leið og við freistuðum þess að losa þjóðina undan oki verðtryggingar og hárra vaxta. Umsóknin um ESB er mikilvægasta hagsmunamál almennings og fyrirtækja á Íslandi og þess vegna munum við jafnaðarmenn aldrei hlaupa frá því verkefni.“

Þó að hér sé um sjálfsagða hluti að ræða virðist því miður ástæða til að ítreka þá. Málið snýst ekki bara um þann sjálfsagða rétt þjóðarinnar að fá sjálf að kjósa um það hvort Ísland gangi í ESB heldur einnig um það hvort eitthvað sé yfirleitt að marka þær samþykktir og samninga sem íslenskir stjórnmálamenn standa að, hvort sem er á vettvangi sinna flokka, innan Alþingis eða á alþjóðavettvangi.