Þýski stjórnlagadómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að stofnun stöðugleikasjóðs evrusvæðisins, ESM, samræmist þýsku stjórnarskránni.

Der Spiegel, segir í fréttaskýringu sem hér er stuðst við, að með þessu hafi skapast forsendur til þess að lægja öldurnar á mörkuðum í Evrópu, styrkja varnir evrusvæðisins og gefa stjórnmálamönnum innan Evrópusvæðisins ráðrúm til þess að takast á við það verkefni að dýpka samruna Evrópuríkja á sviði bankamála. Þar ber hæst áform um stofnun sameiginlegs bankaeftirlits og sameiginlegs innistæðutryggingakerfis.

Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe komst að þeirri niðurstöðu að stjórnarskrá Þýskalands kæmi ekki í veg fyrir að þýska ríkið leiddi í lög stofnun evrópska stöðugleikasjóðsins og aðrar þær ráðstafanir sem leiðtogar í Evrópu hafa samið um að grípa til vegna þess skuldavanda sem sækir að ríkjum á sunnanverðu evrusvæðinu.

Niðurstöðu dómstólsins hefur verið fagnað um alla álfuna. Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, segir að niðurstaðan dragi úr spákaupmennsku á fjármálamörkuðum gegn þeim ríkjum sem lakast standa.

Á mörkuðunum virtist mönnum einnig létt og vonir vöknuðu um að niðurstaðan stuðlaði að auknum stöðugleika og minni áhættu á evrusvæðinu. Evran styrktist, verð hlutabréf hækkaði og vextir spænskra og ítalskra skuldabréfa lækkuðu.

Jean-Claude Juncker, oddviti efnahags- og myntbandalags Evrópu (Euro Group) gerir ráð fyrr að björgunarsjóðurinn taki til starfa eftir næsta fund fjármálaráðherra evrusvæðisins þann 8. október næstkomandi.

Á vef Der Spiegel segir að niðurstaða stjórnlagadómstólsins séu aðrar góðu fréttirnar sem borist hafi varðandi horfurnar á evrusvæðinu á einni viku. Á fimmtudag í síðustu viku tilkynnti Mario Draghi, formaður bankastjórnar Evrópska seðlabankans, að bankinn mundi framvegis halda niðri vaxtastigi með því að kaupa á eftirmarkaði ótakmarkað magn af skuldabréfum þeirra ríkja sem verst standa. Þær aðgerðir hafa þegar stuðlað að umtalsverði vaxtalækkun á spænskum skuldabréfum. Nú mun ESM geta aukið enn varnirnar með því að veita allt að 500 milljörðum evra lán úr björgunarsjóði til þeirra ríkja sem verst standa.

Þetta tvennt, skuldabréfakaupin og staðfesting ESM, mun leggja nýjan og traustari grunn undir evrusvæðið. Vonir eru bundnar við að framundan sé tímabil stöðugleika. Það verði ekki jafnfýsilegt og áður fyrir spákaupmenn að veðja á að einstök ríki verði gjaldþrota eða yfirgefi evrusvæðið.

Der Spiegel segir að nú þegar óvissu um niðurstöðu stjórnlagadómstólsins hefur verið eytt geti leiðtogar Evrópuríkjanna haldið áfram með þau verkefni sem bíða til að koma á varanlegum stöðugleika á evrusvæðinu, ekki síst því að vinna að auknum samruna á sviði bankamála.

Á miðvikudag kynnti framkvæmdastjórn ESB frumvarp að nýskipan bankamála þar sem gert er ráð fyrir stofnun nýs Bankaeftirlits Evrópu. Samkvæmt frumvarpinu mundi Seðlabanki Evrópu taka að sér eftirlit með bönku á Evrusvæðinu frá og með upphafi næsta árs.

Frá sama tíma geti bankar sótt um aðstoð beint til stöðugleikasjóðsins, ESM. Stjórnvöld í Þýskalandi og nokkrum ríkjum sem standa utan evrusvæðisins eru hins vegar þeirra skoðunar að of skammur tími sé til stefnu hvað varðar lánveitingar til bankanna. Þýsk stjórnvöld vilja tefja fyrir beinum stuðningi við bankana eins lengi og hægt er.

Þjóðverjar halda því fram að koma verði á skilvirku bankaeftirliti áður en bankar á evrusvæðinu fá aðgang að sjóði ESM. Bresk stjórnvöld krefjst einnig tryggingar fyrir því að Evrópski seðlabankinn, ECB, fái ekki vald til að setja reglur sem nái til banka með höfuðstöðvar utan ríkjanna 17 á evrusvæðinu.

Einnig heyrast gagnrýni á þær valdheimildir sem Evrópski seðlabankinn mun öðlast með gildistöku nýju reglanna. Þýskir sósíaldemókratar andmæla því til dæmis að gert sé ráð fyrir að sama stofnunin veiti bönkunum eftirlit og taki ákvörðun um lánveitingar til þeirra.

Der Spiegel spáir því að deilur um samruna á sviði bankamála haldi leiðtogum ESB ríkjanna uppteknum næstu mánuðina. Þar verði sameiginlegt fjármálaeftirlit aðeins fyrsta mál á dagskrá.

Næstu skref verði enn umdeildari en þar kemur að hugmyndum um að koma á fót sameiginlegu innistæðutryggingakerfi og sameiginlegum sjóði til þess að taka þátt í uppgjöri gjaldþrota banka. Nú er unnið er að samningu frumvarps þess efnis á æðstu stöðum innan ESB og er búist er að frumvarpið líti dagsins ljós fyrir árslok.

Þeir sem eru hlynntir sameiginlegu innistæðutryggingakerfi segja að aðeins með upptöku þess megi búa svo um hnútana að sameining bankamála á evrusvæðinu geti staðið af sér kreppur í framtíðinni.