Í dag, miðvikudaginn 10. október, kom út stöðuskýrsla um framgang aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. Um er að ræða þriðju skýrsluna af þessu tagi, en slík skýrsla hefur komið út árlega síðan aðildarviðræður hófust milli Íslands og ESB.

Í grófum dráttum má segja að niðustaða skýrslunnar sé sú að aðildarviðræður Íslands og ESB gangi vel. Ísland heldur áfram að uppfylla þau skilyrði sem nauðsynleg eru fyrir inngöngu í sambandið og er á heildina litið komið langt á veg með undirbúning aðildar.

Í skýrslunni segir að Ísland uppfylli hin pólitísku skilyrði fyrir aðild. Hér sé lýðræði, starfhæft réttarkerfi og virðing fyrir mannréttindum.

Ísland uppfyllir einnig hin efnahagslegu skilyrði fyrir aðild. Í skýrslunni segir að á Íslandi sé starfandi markaðsbúskapur og að efnahagurinn sé búinn að ná sér vel eftir kreppu, hraðar en margir áttu von á. Þó sé enn hátt atvinnuleysi (miðað við það sem þekkist hér á landi) og skuldir einkageirans og almennings þykja háar. Þá segir að gjaldeyrishöftin séu vandamál þegar kemur að viðræðunum en bent er á að unnið sé að lausnum.

Þegar kemur að löggjöf Evrópusambandsins segir í skýrslunni að undirbúningur Íslands til þess að uppfylla þau skilyrði sem felast í  löggjöfinni séu á heildina litið góður þegar kemur að flestum köflum löggjafarinnar. Góður framgangur á samningaviðræðum á hinum ýmsu stefnum sambandsins undirstrika þetta. Þá hafi Ísland hafið undirbúning á viðræðum á lykilstefnumálum eins og landbúnaði og byggðastefnu.

Þó er það nefnt í skýrslunni að á sumum sviðum eru skilyrðin ófullnægjandi. Á það sérstaklega við á sviðum fjármálaþjónustu, landbúnaðs, landsbyggðarþróun, umhverfismála, sjávarútvegsmála, frjáls flæðis fjármagns, fæðuöryggis, dýra- og plöntuheilbrigðis, skatta og tolla.

Eins og kom fram að ofan er litið svo á að aðildarviðræðurnar milli Íslands og Evrópusambandsins gangi vel. Átján kaflar hafa verið opnaðir í samningaviðræðunum, sem er meira en helmingur þeirra kafla sem þarf að semja um. Þá hefur 10 köflum verið lokað nú þegar. Á næstu mánuðum munu viðræðurnar halda áfram og fleiri kaflar opnaðir.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/key_documents/2012/package/is_rapport_2012_en.pdf