Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins verður sett á fót  5. október í Þjóðmenningarhúsinu. Hlutverk hennar verður að fylgjast með samskiptum Íslands og Evrópusambandsins og þá sérstaklega umsóknar- og aðildarviðræðuferlinu sem framundan er.

Sameiginleg þingmannanefnd, sem skipuð er þingmönnum Evrópuþingsins og fulltrúum þjóðþings umsóknarríkis, er ávallt sett á laggirnar í aðildarviðræðuferli. Nefndin samanstendur af 18 þingmönnum, níu frá Alþingi og níu frá Evrópuþinginu.

Á dagskrá stofnfundar þingmannanefndarinnar eru samskipti Íslands og ESB þar sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Timo Summa sendiherra og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB og Christian Monnoyer fulltrúi ráðherraráðs ESB flytja ávörp. Aðrir dagskrárliðir eru m.a. staða efnahagsmála á Íslandi, sjávarútvegsstefnur Íslands og ESB, norðurslóðamál og orkumál. Í lok fundar mun nefndin afgreiða tilmæli um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins.

Sjá nánar umfjöllun á vef Alþingis.