Í rúm fimmtán ár hefur Ísland verið aðili að EES. Kostir þess samstarfs fyrir Ísland hafa lengst af verið óumdeildir. Það er mikil mótsögn í Evrópuumræðunni hér á landi, því að þrátt fyrir allt jákvæða sem Evrópusamstarf hefur þó fært okkur, þá er andstaðan engu að síður hatrömm og í reynd órökrétt miðað við þá reynslu okkar.

ESB er samband frjálsra og fullvalda ríkja. Þeir sem andmæla aðild Íslands að ESB búa til alls kyns grýlur og hindranir sem að þeirra mati ættu að standa í vegi fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, t,d, fullveldisafsal. Í hefðbundinni skilgreiningu fullveldis er gengið út frá því að hið þrískipta ríkisvalds lúti allt innlendri stjórn. Fullveldi og frelsi manns á eyðieyju er merkingarlaust eins og fullveldi þjóða er merkingarlaust án samhengis við tengsl þeirrar þjóðar við aðrar.

Aðild Íslands að ESB kallar á að stjórnarskránni verði breytt þannig að hún endurspegli skýra heimild til ríkisstjórnar og Alþingis að framselja hluta fullveldisins til yfirþjóðlegrar stofnunnar eins og ESB. Hafa ber í huga í þessu samhengi að íslensk löggjöf er almennt undir miklum erlendum áhrifum.  Það hefur farið framhjá ESB-þjóðum eins og til dæmis Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi, að þær hafi glatað fullveldinu vegna ESB aðildarinnar.

Regluverkið er algengasti skotspónn andstæðinga Evrópusambandsaðildar. Regluverk ESB felur í sér töluverða einföldun og sparnað ef betur er að gáð. Eitt regluverk í stað 27 aðgreindra um sambærileg mál. Sameiginlegt regluverk á vegum ESB eykur þannig á gegnsæi og skilvirkni.

Í alþjóða samstarfi almennt og Evrópusamstarfi sérstaklega geta fulltrúar Íslands fært rök fyrir máli sínu. Það er alltaf meginmarkmið að ná sátt í málum og þau skipti sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram þar sem reynt hefur á atkvæðavægið eru fá. Ef eitthvað, þá hefur hallað á stóru ríkin í þeim efnum.

Aðal mótrök andstæðinga aðildar að ESB snúa hins vegar að sameiginlegu sjávarútvegstefnu bandalagsins. Á Íslandi er engin tilbúin til þess að gangast undir sameiginlegu fiskveiðistefnuna að óbreyttu. Ísland býr við þann kost í sjávarútvegsmálum að vera fyrir löngu búin að ná og uppfylla markmiðum stefnunnar um t.d. sjálfbærni og verndun stofna. Sameiginleg fiskveiðistefna ESB er í grundvallaratriðum eins og fiskveiðistefna Íslands hvað varðar sameiginlega fiskistofna. Það er á þeim grunni sem til hennar er stofnað.

Sameiginleg fiskveiðistefna ESB er í raun undantekning hvað varðar auðlindastjórnun innan þess. ESB sem slíkt ræður ekki yfir eða á neinar auðlindir. Og það stendur ekki til. Olíulindir Breta og Dana eru breskar og danskar.

Íslenskur landbúnaður mun áfram leika lykilhlutverk á ferskvörumarkaði hér á landi. Samkeppnisstaða landbúnaðarins er að mínu mati vanmetin. Ef íslenskur landbúnaður fær eðlilegra rekstrarumhverfi þá er honum allir vegir færir. Höfum enn frekar í huga að ESB ríkið Danmörk, með litlar sem engar auðlindir og skandinavískt skattaumhverfi er stórveldi á alþjóðamörkuðum með unnar landbúnaðarvörur.

Það sem síðan skiptir öllu máli fyrir bæði íslenskan sjávarútveg og landbúnað í tengslum við aðildarviðræður að ESB er sú staðreynd að í aðild felst eina fyrirsjáanlega tækifæri íslendinga til þess að opna á stóran erlendan markað með fullunnar vörur. Allt slíkt er í dag takmörkunum háð sem myndu falla niður við aðild.

Guðmundur Gunnarsson