Það er gæfa hverrar þjóðar að geta horft til þess sem landsmenn eiga sameiginlegt. Farsæld þjóðar felst enn fremur í því að lifa í sátt við nágrannaþjóðir. Þeim þjóðum sem tekst vel upp með hvort tveggja vegnar best allra.

Við Íslendingar höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að byggja landið upp á grunni sameiginlegrar reynslu, sögu og menningar. Þetta hefur okkur tekist þrátt fyrir oft á tíðum heiftarleg átök um hvert stefna beri hverju sinni. Landsmönnum, sem hafa ólíkar vonir og væntingar, hefur tekist að horfa til þess sem sameinar þá í stað þess að horfa til þess sem sundrar.

Okkur hefur hins vegar ekki vegnað eins vel þegar kemur að samvinnu við nágrannaþjóðir okkar. Harkalegar deilur um hafsvæðið í kringum landið og þann mikla auð sem hafið býr yfir bera vott um það. Einnig hefur skort verulega á að við höfum komið til aðstoðar þegar næstu nágrannar okkar, Færeyingar og Grænlendingar, hafa átt undir högg að sækja. Vandinn virðist liggja í þeirri meinsemd að við horfum í meiri mæli til þess sem aðskilur okkur frá þeim í stað þess að horfa til þess sem er líkt með grönnum.

Við höfum einnig misst sjónar á því sem við eigum sameiginlegt með öðrum þjóðum Evrópu. Einblínt er á það sem aðskilur okkur frá þeim. Samvinna þjóða Evrópu er eitt best þekkta dæmi mannkynssögunnar um ávinning þess að horfa til þess sem sameinar frekar en þess sem sundrar.

Byggjum samvinnu við nágranna okkar á grunni þess sem við eigum sameiginlegt með þeim frekar en því sem sundrar. Það boðar aukna farsæld.