svana_helen

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins

Í ályktun Iðnþings 14. mars 2013 segir m.a um Evrópumál:

„Viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu þarf að leiða til lykta sem fyrst. Nauðsynlegt er að ljúka aðildarviðræðum og að þjóðin eigi síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál.“

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, flutti ræðu á Iðnþingi fyrir troðfullum sal á Hótel Nordica. Hún kom víða við í ræðu sinni en sagði þetta um Evrópumálin og aðildarviðræðurnar:

„Aðild Íslands að ESB er umdeilt mál með margar hliðar. Það er skiljanlegt að margir séu efins um að aðild sé rétta skrefið, atvinnuleysi er t.d. mikið í sunnanverðri Evrópu. Menn óttast að hagvöxtur verði hægur innan Evrópu samanborið við Asíu og N-Ameríku og svo óttast sumir að rekstur evrunnar kalli á miklar breytingar, s.s. að reka björgunarsjóði og bræða saman ríkisfjármál evrulandanna.

Það er engu að síður staðföst skoðun mín að farsælast sé að halda viðræðum um aðild að Evrópusambandinu áfram og leiða þær til lykta. Að slíta viðræðunum nú er að mínu mati glapræði. Þar kemur fram viðleitni til að búa íslensku atvinnu- og þjóðlífi betri skilyrði og jafna samkeppnisstöðuna. Íslensk fyrirtæki eru í samkeppni við evrópsk fyrirtæki, bæði á markaði ESB og öðrum mörkuðum. En það er eins og við séum með aðra höndina bundna aftur fyrir bak, með gjaldeyrishöft, miklu hærra vaxtastig og gjaldmiðil sem hvergi er tekið mark á. Þetta bætist við þann vanda sem ekki verður ráðið við, sem er fjarlægð landsins frá helstu mörkuðum. Með þessu ástandi er öllu snúið á haus, við þyrftum einmitt að búa við betri samkeppnisskilyrði til þess að vega upp á móti fjarlægðinni.

Stjórnmálaforingjar segja sumir að nú sé ekki rétti tíminn til að standa í þessum viðræðum. Við eigum að bíða í nokkur ár, getum hvort sem er ekki tekið upp evruna fyrr en eftir 10 ár í fyrsta lagi. Það er skrýtið hve stjórnmálamenn eiga erfitt með að hugsa meira en 4 ár fram í tímann. 10 ár eru ekki langur tími í sögu þjóðar, við tjöldum til meira en einnar nætur.“