Svartfjallaland hefur fengið viðurkenningu ESB sem mögulegt aðildarríki, en búast má við að fjögur til fimm ár líði áður en aðildarviðræðum getur lokið með aðildarsamningi.

Það er fyrsta ríkið á vestanverðum Balkanskaga sem fær tækifæri til að hefja aðildarviðræður við sambandið í fimm ár. Af löndunum á Balkanskaga hefur aðeins Slóvenía fengið aðild að ESB til þessa, en auk Svartfjallalands hafa Króatía og Makedónía stöðu umsóknarlands.

Viðræður við Makedóníu hafa verið í biðstöðu í nokkur ár vegna deilu við Grikkland um nafn landsins, sem er samnefnt Makedóníuhéraði í Grikklandi. Albanía, Bosnía og Hersegóvína og Serbía hafa einnig sótt um aðild og sömu sögu er að segja af Kosovo. Þessar þjóðir þurfa lengri undirbúningstíma áður en formlegar aðildarviðræður geta hafist.

Svartfjallaland er því komið í hóp með Íslandi, Króatíu og Tyrklandi sem formlegt umsóknarríki að ESB. Landið er enn eitt smáríkið sem sækir um aðild að sambandinu, en þar búa ríflega 650.000 manns.

Svartfjallaland notar evruna sem gjaldmiðil af sögulegum ástæðum, þar sem þýska markið hafði verið gjaldmiðill landsins í áraraðir.

Það er ástæða til að óska Svarfjallalandi góðs gengis í aðildarviðræðunum sem eru framundan.