Íslenskur landbúnaður nýtur mikilla styrkja þegar borið er saman við önnur lönd.

Á árunum 2007 til 2009 mátti rekja 53% tekna íslenskra bænda til ríkisstyrkja og þeirra verndar sem leiðir af tollverndinni og innflutningshöftunum sem verndar landbúnað hér á landi fyrir erlendri samkeppni.

Að meðaltali er þetta hlutfall um 20% í löndum innan OECD. Af þeim löndum sem Íslendingar kæra sig yfirleitt um að bera sig saman við eru það aðeins Norðmenn sem styrkja landbúnað til jafns við Íslendinga. Þar var stuðningurinn ívið meiri en hérlendis árin 2007 til 2009 en þá mátti rekja 61% tekna norskra bænda til hins opinbera stuðnings- og verndarkerfis.

Verði aðild að Evrópusambandinu að veruleika hér á landi mun stuðningskerfi íslensks landbúnaðar gjörbreytast. Landið opnast algjörlega fyrir tollfrjálsum innflutningi landbúnaðarvara frá öðrum ríkjum ESB, undan þeirri grunnreglu yrði ekki vikist. Að sama skapi opnast nýir möguleikar á tollfrjálsum útflutningi íslenskrar framleiðslu.

En hvernig yrði rekstrarumhverfi íslenskra bænda innan Evrópusambandsins? Til yrði nýtt stuðningskerfi, ólíkt því sem landbúnaðurinn býr nú við. Þótt viðræður standi yfir og séu ekki einu sinni komnar að landbúnaðarkaflanum er hægt að nálgast vísbendingar um hvernig slíkt kerfi gæti litið út í meginatriðum með því að skoða reynslu þeirra sem áður hafa staðið í sömu sporum.

Fjölmargar skýrslur hafa þegar verið gerðar í tengslum við aðildarviðræðurnar þar sem þessi mál eru skoðuð ofan í kjölinn af helstu sérfræðingum þjóðarinnar. Þær eru meðal annars aðgengilegar á sérstökum vef utanríkisráðuneytisins. Í þessum skýrslum hefur iðulega verið leitast við að draga lærdóma af reynslu Finna og máta íslensk bú inn í finnskt umhverfi.

Hvers vegna er svo mjög horft til Finnlands? Þegar þeirrar spurningar er spurt fást nokkrar skýringar.

Til dæmis þær að Finnar hafi lagt mikla áherslu á viðunandi niðurstöðu fyrir sinn landbúnað í aðildarviðræðunum og hafi sótt heimildir til þess að styðja hann sérstaklega úr eigin ríkissjóði umfram þann stuðning sem greiddur er úr sameiginlegum sjóðum Evrópusambandsins. Um 60% af styrkjum til landbúnaðar í Finnlandi eru nú greiddir af finnska ríkinu en um 40% úr sjóðum Evrópusambandsins.

Í aðildarviðræðum Finna kom berlega í ljós að Evrópusambandið var tilbúið til þess að sníða reglur sínar til með varanlegum undanþágum, sem tóku mið af sérstöðu Finna, enda er það markmið ESB að lífvænlegt sé að stunda landbúnað og búa í dreifbýli í öllum héruðum aðildarríkja. Þess vegna var komið á norðurslóðastuðningi, sem skilgreindur var sérstaklega fyrir landbúnað sem stundaður er norðan sextugustu og annarrar breiddargráðu í Finnlandi, rétt eins og í Svíþjóð.

Þarna er um að ræða varanlega heimild. Fjármagnið kemur úr ríkissjóði aðildarríkisins en ekki sameiginlegum sjóðum sambandsins. Stundum heyrist því haldið fram að allar undanþágur frá meginreglum ESB verði tímabundnar. Það á ekki við um norðurslóðastuðninginn, sem er hluti af aðildarsamningi Finnlands, og hefur því sama gildi og hinir ýmsu sáttmálar ESB. Norðurslóðastuðningurinn er varanlegur og ætlaður til að vega upp þá annmarka sem eru á því að stunda samkeppnisæfan landbúnað á norðlægum slóðum vegna harðbýlis, strjálbýlis og erfiðra veðurfarsskilyrða.

Ekki þarf að taka fram að sömu röksemdir eiga við um umhverfi íslensks landbúnaðar, eins og fram kemur í viðtali við Stefán Hauk Jóhannesson, aðalsamningamann Íslendinga, hér í blaðinu.
Til marks um aðlögunarvilja Evrópusambandsins að finnskum landbúnaði má einnig nefna að áður en Finna gengu í sambandið var ekki til stuðningskerfi fyrir ylrækt innan ESB. Finnska ríkið lagði áherslu á að fá heimild til að styðja sína ylrækt og með aðildarsamningnum var komið upp slíku kerfi, auk tímabundins stuðnings við þá garðyrkjubændur sem kusu að hætta framleiðslu. Auk þess eru veittar vaxtaniðurgreiðslur á eldri og yngri lánum og fjárfestingarstyrkir.

Hér hefur að nokkru leyti verið vitnað til skýrslu sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið haustið 2009 og veitir vísbendingar um hvernig íslensk bú gætu staðið að vígi ef landbúnaðarstefna ESB næði til þeirra. Leiðin, sem farin er í umræddri skýrslu, er að spegla umhverfi finnsks landbúnaðar yfir á íslenskan veruleika.

Þar kemur fram að sterk rök séu fyrir því að framleiðsluaðstæður hér á landi séu svipaðar og í nyrstu héruðum Finnlands, þar sem norðurslóðakerfið gerir ráð fyrir að mestur stuðningur sé veittur.

Hið almenna styrkjakerfi Evrópusarnbandsins byggist í dag að mestu á styrkjum án framleiðslutengingar. Stuðningur við bændur í ríkjum Evrópusambandinu er hins vegar ólíkur milli landa og milli svæða innan landa og ræðst munurinn að miklu leyti af framleiðsluskilyrðum, sögulegum og menningarlegum röksemdum.

Norðurslóðakerfið finnska er dæmi um það að harðbýli, strjálbýli og veðurfarsskilyrði hafa skapað grundvöll að sérstöku styrkjakerfi til viðbótar þeim almennu styrkjum sem veittir eru á forsendum almennu landbúnaðarstefnunnar.

Í skýrslunni fyrrnefndu var áætlað hvernig rekstraraðstæður og styrkjaumhverfi íslensks landbúnaðar mundi breytast við Evrópusambandsaðild, að teknu tilliti til ákveðinna forsenda um þróun á matvörumarkaði hér á landi. Tekið hefur verið tillit til gengishrunsins og gefnar eru forsendur um þróun gengis sem miðast við styrkingu krónunnar þar til jafnvægis er náð við gengisvísitöluna 135.

Ljóst er að sá stuðningur sem íslenskum bændum mundi bjóðast á grundvelli almennu sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar eingöngu – án sérstaks kerfis í anda norðurslóðastuðningsins – væri umtalsvert lægri en sá beini stuðningur í formi styrkja sem íslenskir bændur búa við í dag. Samdrátturinn yrði á bilinu 40-50%.

En tölurnar breytast verulega þegar tekið hefur verið mið af norðurslóðakerfinu, sem komið var á til þess að tryggja lífvænlegan landbúnað norðan sextugustu og annarrar breiddargráðu í Finnlandi. Norðan þeirrar breiddargráðu er landinu skipt upp í fjögur misjafnlega harðbýl svæði og eru greiðslur því hærri því sem norðar dregur.

Þetta stuðningskerfi er hluti af aðildarsamningi Finnlands við sambandið. Heimildarmenn blaðamanns telja að sérstaða íslensks landbúnaðar sé slík að augljóslegt sé hægt að ná fram sérstöku stuðningskerfi á kostnað ríkissjóðs innan Evrópusambandsins, sem sniðið er að íslenskum aðstæðum, en með vísan í ýmis fordæmi eins og Norðurslóðastuðning Finna og Svía reglur sem settar voru um harðbýlisstuðning við landbúnað á Bretlandi og Írlandi við inngöngu þeirra ríkja í sambandið á áttunda áratugnum og reglur um stuðning við eyjar og afskekkt héruð sem eru í mikilli fjarlægð frá mörkuðum.

Um 56% af ræktuðu landi í Finnlandi fellur undir norðurslóðakerfið. Á þeim svæðum er samkvæmt kefinu framleiðslutengdur stuðningur fyrir mjólkurframleiðslu, gripagreiðslur eru inntar af hendi, auk greiðslna fyrir hverja einingu lands. Einnig er greitt fyrir ræktun í gróðurhúsum og veittur geymslustuðningur fyrir garðyrkju, berja- og svepparækt og fyrir hreindýrarækt.
Tafla sem birt er hér og fengin úr fyrrnefndri skýrslu hagfræðistofnunar og sýnir hvernig búið er að fella íslenskan landbúnað að aðstæðum í norðanverðu Finnlandi.

Taflan sýnir áætlun um samanlagnað stuðning úr almennri landbúnaðarstefnu ESB (CAP) annars vegar og frá kerfi sambærilegu við norðurslóðastuðning Finna eins og það er útfært í tveimur norðlægustu héruðum Finnlands.

Niðurstaðan að stuðningur innan íslensks norðurslóðakerfis yrði nokkru hærri en sá stuðningur sem nú er veittur og er þá sá óbeini stuðningur sem fólginn er í markaðsvernd, innflutningshöftunum og samkeppnishindrunum tekinn með í reikninginn.

Heildarkostnaðurinn við að halda úti núverandi kerfi á Íslandi, (15920) að meðtalinni markaðsverndinni, er eilítið lægri en kostnaðurinn við að halda úti stuðningskerfi landbúnaðar í næstnyrsta héraði Finnlands (16542). Kostnaðurinn er hins vegar talsvert lægri en það kostar að halda úti landbúnaði í nyrstu héruðum Finnlands (20758).

Hér er horft á heildarstuðninginn og þær fjárhæðir sem kostað er til í heild úr sjóðum ESB og ríkissjóði Finnlands. Eins og nefnt var að ofan er um 60% af heildarstyrkjum til landbúnaðar í Finnlandi greiddir úr ríkissjóði landsins en um 40% koma úr sjóðum ESB.

Eitt mikilvægasta verkefni samningamanna Íslands í aðildarviðræðum við ESB hlýtur að vera að ná fram niðurstöðu sem tekur mið af þessu fordæmi Finna og veitir heimild til sérstaks stuðningskerfis við íslenskan landbúnað byggt á sérstöðu landsins og harðbýli. Um leið hlýtur að vera mikilvægt að stuðla að því í umræðu á Íslandi að skapa pólitískan vilja meðal almennings til þess að ráðstafa hluta af þeim ávinningi sem neytendur fengju í lægra vöruverði vegna innflutnings matvæla til þess að koma á fót sérstöku norðurslóðakerfi fyrir íslenskan landbúnað innan Evrópusambandið. í því sambandi hafa viðmælendur blaðsins meiri efasemdir um pólitískan vilja hér innanlands en í Brussel.

Daði Már Kristófersson, dósent og einn höfunda þessarar skýrslu, bendir á það í viðtali í þessu blaði að samanburðurinn milli Íslands og Finnlands sé þeim annmarka háður að þar sé ekki búið að gera ráð fyrir að bændum verði bættur sá skaði sem þeir yrðu fyrir við kerfisbreytingu vegna þess hversu mikil verðmæti íslenskir bændur eiga nú í þeim stuðningi sem þeir hafa hlotið frá ríkisvaldinu og stundað viðskipti með sín á milli. Kvótaréttindin eru oft verðmætustu og auðseljanlegustu eignir búanna.

Mikilvægasta og erfiðasta verkefnið í aðildarsamningunum verður líklega það að lenda niðurstöðu um hvernig íslenska landbúnaðarkerfið verði unnið út úr því öngstræti sem það er komið í eftir viðskipti með framleiðsurétt og markaðsaðgang á undanförnum árum.