Stuðningur við ríki sem sótt hefur um aðild og rótgróinn hluti af Evrópusambandinu. Markmið stuðningsins er að búa stjórnsýslu umsóknarríkis sem best undir að takast á við umsóknarferlið og sömuleiðis inngönguna ef til þess kemur.  Þetta eru kallaðir IPA-styrkir (Instrument for Pre-Accession Assistance) og þeim er skipt í fimm flokka:

 

  1. Aðstoð við uppbyggingu stofnana
  2. Stuðning við samstarf umsóknarríkja, mögulegra umsóknarríkja og aðildarríkja ESB
  3. Stuðning við byggðaþróun
  4. Stuðning við mannauðsþróun
  5. Stuðning við dreifbýlisþróun

Samkvæmt áætlun sem gerð var árið 2010 voru 28 milljónir evra til ráðstöfunar fyrir Íslendinga, á árunum 2011-2013, um 4,6 milljarðar króna, miðað við skráð gengi í dag.

 

Tvö meginmarkmið hafa verið skilgreind varðandi þennan stuðning við Ísland, samkvæmt umfjöllun á Evrópuvef Háskóla Íslands. Annars vegar er styrking íslenskrar stjórnsýslu svo að hún geti tekist á við þær breytingar sem innleiðing ESB-löggjafarinnar hefði í för með sér, ef Ísland gengi í ESB. Hins vegar er undirbúningur vegna hugsanlegrar þátttöku í sjóðum og samstarfsáætlunum ESB sem Íslandi stæði til boða ef það gengi í sambandið. Það ætti einna helst við um svokallaða uppbyggingarsjóði ESB sem styðja við atvinnu- og byggðaþróun og eflingu mannauðs og vinnumarkaðar.

 

Um þriðjungur af þessu fé er sérstaklega ætlaður til að kenna Íslendingum að nota byggða, félagsmála- og dreifbýlissjóðina. Enn sem komið er hefur afskaplega litlu af þeim fjármunum verið ráðstafað. Það verkefni sem langlengst er komið á þessu sviði er verkefnið Katla Geopark, eða Katla Jarðvangur, sem nánar er fjallað um hér til hliðar og hefur hlotið um 55 milljóna króna styrk.

 

Anna Margrét Guðjónsdóttir er einn fremsti sérfræðingur Íslendinga um IPA-styrki. Hún bjó  lengi í Brussel og starfaði þar sem forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga og annaðist samskipti við Evrópusambandið fyrir íslensk sveitarfélög. Nú rekur hún ráðgjafarfyrirtæki í Reykjavík og hefur tekið þátt í því með sveitarstjórnarmönnum, fyrirtækjum, stofnunum og áhugasömum einstaklingum að því að undirbúa verkefni og umsóknir þannig að IPA-styrkirnir nýtist bæði til þess að kenna Íslendingum ný vinnubrögð og til þess að fá inn í landið styrki til nýsköpunar og byggðaþróunar um allt land.

 

“Það eru stjórnvöld í hverju ríki sem ákveða hvernig á að nota þessa peninga,” segir Anna Margrét. “íslensk stjórnvöld ákváðu, í samráði við stækkunardeild ESB, að 30 – 50% af 28 milljónum evra ættu að fara í að læra að nota byggðasjóði Evrópusambandsins. Hugmyndin er að í sveitarfélögum um land allt æfi fólk sig í að búa til verkefni og umsóknir þannig að ef við göngum inn þekki allir til þess hvernig það er að vera hluti af byggðastefnu ESB og verði  orðnir læsir á kerfið þegar að kemur. Við erum að fara í alvöru æfingu, prófa að búa til alls konar atvinnu- og mannauðs umsóknir sem eru unnar með öðrum hætti en við eigum að venjast á Íslandi.”

 

Anna Margrét segir að það séu margs konar hugmyndir sem fólk um land allt vilji setja í samhengi við IPA-styrkina og byggðastefnu ESB og hún veitir ráðgjöf við það að koma verkefnum í réttan búning. Flest verkefnin eru enn á viðkvæmu hugmynda- og umsóknarstigi og því er fátt látið uppi en í upphafi sumars er þess að vænta að fréttir berist af því hvaða verkefni njóta styrkja í næstu lotu. Gert er ráð fyrir að IPA verkefnin hefjist í ársbyrjun 2013 og standi í tvö ár..

Ein helsta breytingin sem mundi fylgja aðild Íslands að ESB og þeirri byggða- og atvinnuþróunarstefnu sem þá yrði tekin upp er fólgin í aukinni aðkomu heimamanna, m.a. í gegnum landshlutasamtök sveitarfélaga. Eins og Anna Margrét lýsir breytingunni virðist hún fyrst og fremst fela í sér að sjónarmið heimamanna fá aukna vikt við forgangsröðun og þróun verkefna. Heimamenn í hverjum landshluta gera samninga til sjö ára í senn um verkefni sem vinna á að í héraði til uppbyggingar á innviðum og atvinnulífi á hverjum stað. Þau verkefni sem samið er um eru þau verkefni sem heimamenn hafa sjálfir búið til og útfært.“

“Valdið er fært heim í hérað í þessum efnum,” segir hún. “Þungamiðjan færist frá ríkinu og út í héruðin.”

 

Sveitarfélögin á hverju svæði eru leiðandi aðilar í þessari vinnu í gegnum landshlutasamtök og atvinnurþróunarfélög; “en þau draga með sér fyrirtæki, stofnanir, bændur, handverksfólk, leiðsögumenn, og skóla svo eitthvað sé nefnt. Þau leggja fram áætlun um hvernig eigi að styrkja byggð á sínu svæði til næstu ára.” Styrkirnir ná til ýmissa þátta. Samkvæmt Evrópuvefnum eru  styrkir sem snúa að fjárfestingum bundnir að minnsta kosti 15% mótframlagi og beinir styrkir kalla á minnst 10% mótframlag frá umsóknarríki. Önnur verkefni lúta ekki reglum um lágmarksmótframlag og viðkomandi umsóknarríki ráða mestu um hvort krafist er mótframlaga í IPA-verkefnum.

 

Anna Margrét segist telja líklegast að ef af aðild Íslands verður muni Íslendingar verða í betri aðstöðu en margar aðrar vestur – Evrópuþjóðir gagnvart byggða- og atvinnuþróunarsjóðum ESB vegna strjálbýlis, óblíðrar náttúru og erfiðs veðurfars.  En það mun vitaskuld velta mest á væntanlegum aðildarsamningi hvernig umhverfi byggða- og atvinnuþróunar verður nái aðildarsamningur fram að ganga í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Hún leggur líka áherslu á að styrkveitingarnar séu ekki eini ávinningurinn af IPA-verkefnunum heldur skili þessi vinna líka ýmsum samböndum og miklum lærdómi í nýjum vinnubrögðum. “Í mínum huga eru evrurnar eitt, en ef til vill felst helsti  ávinningurinn í því að læra ný vinnubrögð í byggðaþróun og hvernig hvert svæði getur hrint sínum hugmyndum í framkvæmd. Það sem heimamenn vilja, en vantar í dag, er fagleg aðstoð og fjármunir; hvorttveggja kemur með IPA-stuðningnum.”

 

Anna Margrét segist telja að með ESB -aðild muni færast aukinn kraftur í atvinnuppbyggingu,  námsframboð muni aukast og átak verði gert í margvíslegri og markvissri uppbyggingu innviða á landsbyggðinni. “Þetta mun síðan skapa auknar tekjur, styrkja búsetu, fjölga fyrirtækjum og styrkja starfsemi fyrirtækja sem fyrir eru.”