Eygló Björk Ólafsdóttir hjá Móður jörð í Vallanesi á Héraði

Það hefur vakið mig til umhugsunar hvernig Evópa er að styðja við landbúnaðinn og landsbyggðina, segir Eygló Björk Ólafsdóttir en hún og eiginmaður hennar, Eymundur Magnússon, reka saman fyrirtækið  Móðir jörð í Vallanesi á Héraði. Þar er stunduð lífræn ræktun og fullvinnsla á  landbúnaðarafurðum, s.s.korni og grænmeti og eru sex heilsársstörf við framleiðsluna. .  Eygló segist þó ekki hafa tekið einarða afstöðu í Evrópumálum en sjái kostina frá sjónarhóli lífrænnar framleiðslu og ekki síst frá sjónarhóli þeirrar byggðastefnu sem framfylgt er innan ESB.

 

“Mér líst vel á það í kerfi ESB að stuðningsmöguleikar fara eftir því hvernig menn hagi sér með tillit til umhverfisins frekar en þess hvað verið er  að framleiða. Vegna þess að umhverfið er tengt stuðningnum er staðreynd að stuðningur við lífrænan landbúnað er mun meiri þar heldur en hjá okkur. Það er virkilega hvatt til slíkra búskaparhátta og stefnumótunin er mjög skýr og markviss.”

 

Evrópusambandið hefur sett sér markmið um að lífrænir búskaparhættir verði orðnir 20% af heildinni innan sambandsins árið 2020 en þeir voru um 5% árið 2008. Hér á landi er talið að lífrænn landbúnaður sé nú stundaður á um 1,4% af ræktuðu landi og eiginleg stefnumótun er ekki fyrir hendi af hálfu stjórnvalda, en hún er þó í undirbúningi

 

Það eru ekki bara umhverfisáhrifin sem ráða því að ESB leggur áherslu á stuðning við lífrænan landbúnað heldur einnig sú staðreynd að þar er á ferð vaxandi markaður.

 

“Neytendur gera sífellt auknar kröfur um að framleiðslan fari fram í aukinni sátt við umhverfið og eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir slíka vöru. Þannig að það eru markaðsleg tækifæri fólgin í lífrænum búskaparháttum sem gefa framleiðendum tækifæri til að skapa sér sérstöðu.,” segir Eygló.

 

Eygló segir að fyrir atvinnurekanda á landsbyggðinni sé einnig brýnt að farið verði að vinna á nýjan hátt að byggðamálum. ESB virðist hafa skilning á því sem ég kalla aðstöðumun.  Innan landbúnaðarstefnunnar (CAP)  er t.a.m. reynt að vega upp á móti þeim ókostum sem felast m.a. í landfræðilegri legu, og reynt að sjá til þess að lönd og þar með fyrirtæki keppi á einhvers konar jafnréttisgrundvelli.  Menn hafa væntanlega komist að því að það auki líkur á því að það sé byggð og atvinnustarfsemi í dreifbýli.  Við erum allt of langt frá þessari hugsun hér á landi og margt í okkar kerfi sem viðheldur ójafnri stöðu dreifbýlis og höfuðborgarsvæðisins. Sem dæmi þá hefur orkukostaður á landinu t.a.m. ekki verið jafnaður út og flutningskostnaður sligar marga. Þar ríkir fákeppni á innanlandsmarkaði og á sama tíma er eins og það sé lögmál að vara  sem framleidd er á landsbyggðinni sé flutt frítt til Reykjavíkur, en fari vara frá Reykjavík út á land þá þarf kaupandinn úti á landi að greiða flutninginn !

 

Ég velti því fyrir mér, ef ekki verður gengið inn í Evrópusambandið þar sem þróuð stefna í þessum málum er fyrir hendi hvernig ætlar Ísland þá að fást við þessa  þætti ? Það verður að fara að huga að þessu og svara því ef það á að vera til atvinnulíf annars staðar en í Reykjavík.