Ulf Dinkelspiel flutti áhugaverðan fyrirlestur í Norræna húsinu í dag. Dinkelspiel var aðalsamningamaður Svía þegar þeir gerðu EES-samninginn ásamt Íslendingum á sínum tíma og hann var einnig í fararbroddi þegar Svíar sömdu um aðild sína að Evrópusambandinu.

Áhugavert var að heyra ummæli hans um fullveldið. Svíar litu svo á að þegar þeir hurfu frá EES og urðu aðilar að Evrópusambandinu hafi þeir styrkt fullveldi sitt. Með aðildinni hafi þeir getað haft mun meiri áhrif með því að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum en með því að standa fyrir utan og beita fullveldi sínu einir og sér. Þetta er umhugsunarefni þegar við ræðum um fullveldi Íslands og þýðingu þess.

Þá var líka merkilegt að heyra að skömmu eftir að Svíar sóttu um aðild á sínum tíma voru aðeins 28% Svía hlynntir aðildinni en það fór svo að um 53% studdu hana þegar aðildin var borin undir þjóðaratkvæði að samningum loknum.  Í dag telja um 57% Svía að aðild þeirra að ESB sé af hinu góða á meðan aðein 17% telja að aðildin sé slæm fyrir Svíþjóð og um 25% telja hana hvorki góða né slæma. Ekki fer milli mála að eftir 14 ára aðild meta flestir Svíar það svo að aðild þeirra sé þeim til hagsbóta.

Ulf Dinkelspiel hefur gefið út fróðlega bók sem fjallar um Svíþjóð og Evrópsamrunan. Bókina kallar hann: Den motvillige europén. Titillinn vísar til þess að Svíar hafa stígið sín skref í Evrópusamrunanum af vissri tregðu og tortryggni og haft áhyggjur af sjálfstæði sínu og fullveldi.

Könnun Eurobarometer