Fyrst eftir að ég flutti heim til Íslands árið 1998 gerði ég mér það stundum að leik að bera saman lánakjör hjá gamla viðskiptabankanum mínum í Þýskalandi, Sparda Bank, og hjá Íslandsbanka og Íbúðalánasjóði hér heima á Íslandi. Samanburðurinn var sorglegur og því hætti ég þessu að mestu mjög fljótlega. Af því tilefni að leiðtogafundur ESB samþykkti að fara í aðildarviðræður við Íslendinga í dag ákvað ég að gefa landsmönnum innsýn inn í lánamarkaði venjulegs fólks á meginlandi Evrópu.

Fyrst skulum við fara yfir fasteignalánamarkað hér heima. Hámarkslán frá íbúðalánasjóði nú eru 20 milljónir króna og sé lánið tekið til 40 ára hljóðar fyrsta afborgun lánsins upp á 143.592.156 kr. Ef miðað er við 5% verðbólgu á ári – sennilega ágætis viðmið – væri síðasta greiðslan að 40 árum liðnum 679.009 kr. en þessi gríðarlega hækkun er vegna verðtryggingar íslenskra lána. Ef tekið er bílalán hjá Íslandsbanka til 60 mánaða upp á 2 milljónir króna á 8,6% verðtryggðum vöxtum er fyrsta afborgunin 42.950 kr. en afborganir lækka síðan niður í 35.525 kr. Eftir því sem mér skilst kemur verðtryggingin til viðbótar við þessar tölur og því í raun ekkert að marka lokatölurnar. Skýrt er tekið fram að upplýsingar í reiknivél séu einungis ætlaðar til viðmiðunar og geti tekið breytingum.

Ef við skoðum fasteignalán upp á 20 milljónir frá mínum gamla viðskiptabanka úti, sem ber næstu 10 ár fasta vexti upp á 3,7%, eru fastar afborganir af láninu 630 evrur á mánuði (100.000 kr.) næstu 10 árin. Ekki má gleyma að þessi erlendu lán eru án verðtryggingar. Verðbólga í Þýskalandi undanfarin 15 ár hefur verið um 1,6%, sem þyrfti þá draga frá vöxtunum, sem falla við það niður 2,1%. Að auki verður að taka fram að afborgunin eða höfuðstóllinn hækka ekki næstu 10 ár, þar sem vextir eru fastir og engin verðtrygging. Afborgunin af láninu væri því 630 evrur um næstu mánaðarmót og hún væri það enn 1. júlí 2020. Miðað er við að lánið sé greitt niður á 40 árum og árleg endurgreiðsla því 2,5% af höfuðstólnum. Upphafleg lánsfjárhæð væri 127.340 evrur (20 milljónir kr.), en að 10 árum liðnum væri höfuðstóll lánsins kominn niður 89.430 evrur (14.040.000 kr.). Ekki má gleyma að laun hefðu hækkað í Þýskalandi á þessum tíma í takt við verðbólgu og hugsanlega hlutdeild launþega í aukningu þjóðarframleiðslu. Engin verðtrygging væri á láninu og það rýrnaði því í takt við verðbólguna. Hér er þessu í raun öfugt farið, því laun eiga ekki að hækka næstu ár, en verðtryggingin mun sjá um að lánin okkar hækki duglega. Hvað þýska bílalánið varðar er hægt að fá bílalán frá lánafyrirtækinu Bon Kredit til 60 mánaða með 5,14% óverðtryggðum, föstum vöxtum og eru fastar afborganir af láninu upp á 237 evrur (37.700 kr.). Afborganir af bílaláninu yrðu því frá 1. til 60. greiðslu eða í 5 ár 237 evrur á mánuði.

Munurinn á íslenska og þýska kerfinu er ekki aðeins, að við Íslendingar erum að borga 186.500 kr. á mánuði á meðan Þjóðverjar borga 137.700 kr. heldur er eignamyndunin allt önnur. Afborganir Þjóðverjans eru þær sömu á fasteignaláninu í 10 ár og á bílaláninu þar til það er uppgreitt að 60 mánuðum liðnum. Þjóðverjinn er að borga fasteignaskuld sína niður á 10 árum um 25% á meðan okkar skuldir aukast bara vegna verðtryggingarinnar. Að auki tryggir verðtryggingarkerfið, að við Íslendingar búum við fullkomna óvissu um hver afborgun bíla- eða fasteignalána er í næsta mánuði, á næsta ári eða eftir 10 ár.

Það er eitt ráð við þessu og það er að ganga í Evrópusambandið og taka upp annan lögeyri. Hversvegna vill 60 % þjóðarinnar láta fara svona illa með sig?

Guðbjörn Guðbjörnsson. Greinin birtist áður á blogginu http://blog.eyjan.is/gudbjorn/