Þrátt fyrir ólguna á evrusvæðinu þjónar það íslenskum hagsmunum best að ganga í Evrópusambandið og verða hluti af evrusvæðinu, segir Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra, í viðtali við The Wall Street Journal í fyrradag.

Viðtal við Oddnýju er uppistaðan í umfjöllun The Wall Street Journal um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Oddný segir mikilvægt fyrir Ísland að taka upp nánara samband við helstu viðskiptaþjóðir með aðild að ESB. „Það er mjög mikilvægt fyrir Ísland, sem er lítið land, að vera í sambandinu eins og okkar góðu nágrannar.“

Blaðamaður The Wall Street Journal nefnir að Oddný taki þarna aðra afstöðu en forveri hennar, Steingrímur J. Sigfusson, sem sé eindregið andsnúinn aðild og hafi sagt að krónan hafi komið Íslendingum að miklu gagni í kjölfar efnahagshrunsins en þá tapaði hún meira en 40% af verðmæti sínu. Núna sé efnahagslífið hins vegar í vexti og atvinnuleysi á undanhaldi. Eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmála sé nú hvernig nálgast eigi gjaldmiðlamálin til framtíðar.

Oddný Harðardóttir sé hlynnt aðild að ESB þar sem umtalsverður hluti viðskipta landsins sé við önnur Evrópuríki. Ísland hafi sótt um aðild á árinu 2009 og viðræður hafi staðið yfir frá 2010.

Blaðið nefnir að fiskveiðimálin verði viðkvæmasti hluti samningaviðræðnanna enda standi útflutningur á fiski undir 40% útflutningstekna Íslendinga og um 83% af útflutningsviðskiptum landsins hafi verið við önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig sé stór hluti innflutnings frá Evrópska efnahagssvæðinu.

Oddný viðurkennir í viðtalinu að það hafi vissulega kosti í för með sér að geta breytt viðskiptahalla í afgang með gengisfellingu en hins vegar komi til aðrir kostnaðarliðir tengdir eigin gjaldmiðli sem vegi þyngra.

„Það er mjög dýrt að reka lítinn gjaldmiðil,“ segir Oddný í viðtalinu.

Hún leggur áherslu á að Ísland eigi ekki aðeins að fá aðild að bandalagi hinna 27 ríkja ESB heldur eigi landið einnig að verða eitt þeirra sautján ríkja sem nota evruna. „Við ættum að fara alla leið,“ segir hún.

Síðan segir The Wall Street Journal að ummæli fjármálaráðherrans séu til marks um það að þrátt fyrir að skuldavandi hafi reynt á trú fjárfesta á ríki eins og Grikklandi og Spáni séu litlar þjóðir á jaðri Evrópu enn áfjáðar að ganga inn á evrusvæðið. Efnahagsbatinn á Íslandi gæti einnig orðið til þess að auka núverandi meðlimum ESB bjartsýni.

Nýleg ummæli frá leiðtogum í Lettlandi og Litháen bendi einnig til þess að þeir líti á evrusvæðið sem æskilegan langtímakost sem munu örva vöxt í löndunum tveimur og stuðla að auknum hagvexti og erlendri fjárfestingu. Bæði ríkin stefni að því að taka upp evru á árinu 2014.

Blaðið hefur eftir Oddnýju Harðardóttur að Íslendingar búist ekki við því að taka upp evruna á svo skömmum tíma.

Oddný segir í viðtalinu að vissulega eigi mörg Evrópuríki í vandamálum sem þau séu að vinna að því að leysa og kvaðst hún vonast til að þeim takist að sigrast á vanda sínum. „Ég vona að Evrópuþjóðirnar komi sterkar út úr kreppunni rétt eins og við gerðum,“ segir hún.