Á Evrópuvefnum birtist þann 18. október svar við spurningunni „Þjónar innganga Íslands mikilvægum hagsmunum ESB?“

Í svarinu við spurningunni kemur fram að aðildarríki Evrópusambandsins eru almennt jákvæð gagnvart inngöngu Íslands í sambandið, meðal annars vegna þessa að Ísland uppfyllir að mestu leyti inngönguskilyrði ESB, eða hin svonefndu Kaupmannahafnarviðmiðin. Þá segir einnig að  sé að mörgu leyti betur búið undir aðild en fyrrum umsóknarríki vegna EES-samningsins og Schengen samstarfsins.

Þegar kemur að mikilvægum hagsmunum ESB og aðild Íslands eru fimm hlutir nefndir og þar segir meðal annars: „Aðild Íslands að Sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins gæti haft jákvæð áhrif á önnur aðildarríki. Reynsla Íslands af umhverfisvænni og sjálfbærri fiskveiðistefnu gæti til að mynda nýst sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB, sem nú er í endurskoðun. Þá gæti aðild Íslands falið í sér aukin tækifæri til fjárfestinga í íslenskum sjávarútvegi. Samningaviðræður eiga þó enn eftir að leiða í ljós hvort aðild hefði í för með sér fullt fjárfestingafrelsi aðildarríkja ESB í sjávarútvegi, það er án nokkurra skilyrða.“

Þá kemur fram að „fullt frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur gæti eins verið ESB-ríkjum í hag, en íslenskur landbúnaður nýtur í dag mikillar tollverndar. Samkvæmt áliti meirihluta utanríkismálanefndar er eitt af markmiðum samninganefndar um landbúnaðarmál að leita allra leiða til að búa svo um hnúta að stuðningi við landbúnað verði sem minnst raskað.“

Einnig kemur fram að „Evrópusambandið lítur svo á að Ísland geti með reynslu sinni á sviði endurnýjanlegrar orku styrkt hlutverk sambandsins á sviði umhverfis- og orkumála. Í því sambandi er aðallega litið til reynslu Íslands á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, einkum að því er tekur til jarðvarmaorku, umhverfisverndar og baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.“

Einnig kemur fram að „talið er að aðild Íslands að ESB gæti styrkt landfræðipólitíska stöðu sambandsins á Norðurslóðum. ESB hefur markað sér skýrari stefnu í málefnum Norðurslóða á undanförnum árum. Í ályktun Evrópuþingsins frá febrúar 2011 kemur fram að aðild Íslands myndi styrkja stöðu ESB innan Norðurskautsráðsins (Arctic Council) og vera mikilvægt tækifæri fyrir ESB til að gegna virkara hlutverki og leggja sitt af mörkum til marghliða stjórnunar (e. multilateral governance) á Norðurskautssvæðinu. Að mati Evrópuþingsins myndi aðild Íslands einnig veita sambandinu stöðu strandríkis (Arctic coastal entity) á svæðinu sem myndi styrkja stöðu þess frekar. Í ályktun Evrópuþingsins frá júlí 2010 kemur ennfremur fram að aðild Íslands myndi greiða fyrir því að úrlausn fáist í sameiginlegum umhverfisverndarmálum á svæðinu og gæti aukið áhuga ESB á Norðurskautssvæðinu og verndun þess, á svæðisvísu og á heimsvísu.“

Að lokum kemur fram að  „ESB telur aðild Íslands geta styrkt hlutverk sambandsins á sviði mannréttindamála í heiminum, í ljósi þess að á Íslandi séu grundvallarréttindi virt og í íslensku samfélagi sé sterk vitund um mannréttindi.“

Vert er þó að bæta við, eins og fram kemur á Evrópuvefnum, að „megináherslan hefur verið lögð á þau atriði sem ætla má að ESB myndi hafa hag af, án tillits til þess hvort eða að hvaða leyti þessi sömu atriði gætu einnig þjónað hagsmunum Íslendinga. Ekki er óalgengt í slíku samstarfi að aðilar hafi gagnkvæman hag af sama atriði.“

Nánar um málið hér: http://evropuvefur.is/svar.php?id=60658