Þrem fyrstu rýnifundum sérfræðinga Íslands og Evrópusambandsins er lokið. Á mánudag var farið yfir löggjöf sem tengist 5. kafla löggjafar ESB um opinber útboð og skoðað hvort íslenskar reglur um opinber útboð eða framkvæmd þeirra samræmist löggjöf ESB. Á þriðjudag, lauk svo rýnifundi um 6. kafla löggjafar ESB um félagarétt og reikningsskil fyrirtækja og endurskoðun. Í gær var svo farið yfir 10. kafla, upplýsingatækni og fjölmiðlar.

Löggjöf 5. og 6. kafla hefur að fullu verið tekin upp á Íslandi vegna aðildar okkar að EES, samkvæmt niðurstöðum sem birtar eru á vef utanríkisráðuneytisins um aðildarviðræðurnar, esb.utn.is/vidraedur, en hver rýnihópur birtir þar greinargerð um þann kafla sem fjallað er um. Í greinargerðinni er fjallað um helstu sjónarmið sem taka þarf tillit til vegna sérstöðu Íslands, mikilvægustu gerðir ESB, væntanleg áhrif breytinga í átt að löggjöf ESB og mikilvæg sjónarmið til að hafa í huga þegar aðildarviðræðurnar sjálfar hefjast.

Hlutverk rýnifundanna er að bera saman löggjöf Íslands og Evrópusambandsins til að sjá hvað ber á milli. Það sem ber á milli verða svo möguleg samningsatriði þegar aðildarviðræðurnar sjálfar hefjast, sérstaklega þar sem taka þarf tillit til sérstöðu Íslands.

Í dag hefst svo rýnifundur um fjármálaþjónustu, en reiknað er með  að það taki tvo fundi og að hver fundur taki tvo daga. Dagskrá rýnifunda má finna hér.