Í grein dagsins fjallar Leifur Björnsson, rútubílstjóri og leiðsögumaður, um Evrópuumræðuna á Íslandi og leggur til þrjá punkta er varða samanburð við önnur lönd, landbúnað og gjaldmiðilsmál. Hér að neðan má lesa greinina í heild sinni.

1. Umræðan um Evrópumálin hefur verið mjög neikvæð hér á Íslandi á þessu ári og snúist að mestu um vanda Grikkja. Það er til dæmis aldrei talað um að við áttum samleið með þremur ESB þjóðum fyrst í EFTA og síðan í EES frá 1970 til ársins 1995.

Þessar þjóðir eru Austurríki, Finnland og Svíþjóð. Árið 1995 þegar þessar þjóðir gengu í ESB áttu þær það sameiginlegt að þjóðartekjur á mann voru þar lægri en á Íslandi. Í dag eiga þær það hins vegar sameiginlegt að þjóðartekjur á mann eru í þessum ríkjum hærri en á Íslandi.

Þessar þjóðir áttu það sameiginlegt að skuldastaðan, hvort heldur sem er ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja eða einstaklinga, var verri en á Íslandi. Í dag eiga þær það sameiginlegt að skuldastaða allra þessara aðila er betri en á Íslandi.

Ekkert þessara landa býr við gjaldeyrishöft eða verðtryggingu.

Það eina sem hefur ekki breyst er að atvinnuleysi er minna á Íslandi en í þessum löndum, en aðal ástæðan fyrir því er að Íslendingar eru ekki nema 320 þúsund og vinnuaflsskortur hjá frændunum í Noregi sem eru 5 milljónir, hefur gert það að verkum að Íslendingar hafa getað fengið vinnu þar eftir hrun. Til skemmri tíma litið er það mjög gott en til lengri tíma litið getur það þýtt atgervisflótta ef að hæft fólk með verðmæta þekkingu fer til Noregs og kemur ekki heim aftur.

Samanburður milli Íslands annarsvegar og Austuríkis, Finnlands og Svíþjóðar hinsvegar sýnir ótvírætt að frá 1995 hefur þeim vegnað betur innan ESB en okkur hefur vegnað utan ESB. Oft mætti halda miðað við umræðuna um ESB aðild á Íslandi að Grikkland væri það land innan ESB sem Ísland ætti sem mesta samleið með, en það gefur hinsvegar auga leið, í ljósi sögunnar, að við eigum meiri samleið með Austuríki, Finnlandi og Svíþjóð.

2.Umfjöllun um landbúnaðarmál af hálfu Stéttarsambands bænda og Bændablaðsins hefur verið með þeim hætti að halda mætti að landbúnaður legðist af á Íslandi við ESB aðild. Margt bendir hinsvegar til að ESB aðild muni gagnast hinum dreifðu byggðum vel.

Í ESB löndunum er til dæmis meiri stuðningur við lífrænan landbúnað en hér á Íslandi.

Allur landbúnaður norðan 62 breiddargráðu er styrktur sérstaklega eftir að Finnland og Svíþjóð gengu í sambandið. Ísland liggur allt norðan 62. breiddargráðu og því myndi þessi regla gagnast  Íslandi vel.

Í ESB löndunum er lögð  mikil áhersla á búsetustyrki fremur en framleiðslustyrki ásamt jöfnun flutnings- og orkukostnaðar sem mun gagnast hinum dreifðu byggðum vel.

Gangi Ísland í ESB verður Ísland dreifbýlasta landið í ESB með rétt rúma þrjá íbúa á hvern ferkílómetra, en í dag er það Finnland með 17 íbúa á hvern ferkílómetra. Út á það munu hinar dreifðu byggðir fá góðan aðgang að ýmiss konar styrkjum til þróunar og nýsköpunar.

Fjármagnskostnaður bænda, eins og raunar allra annarra, mun snarlækka við ESB aðild, bændum, hinum dreifðu byggðum og þjóðinni allri til hagsbóta.

Almennt má segja að ESB aðild muni styrkja hinar dreifðu byggðir landsins og raunar landið allt, og mun að öllum líkindum styrkja allan landbúnað á Íslandi að undanskildum verksmiðjubúskap með sví, kjúklinga og kalkúna.

3. Mikið hefur verið talað um kosti íslensku krónunnar í umræðunni um efnahagsmál. Ef við skoðum hinsvegar málið þá hefur vaxtamunur milli Íslands og ESB landsins Danmerkur verið 12% að meðaltali síðan 1980.

Ef við tökum síðan samanburð við Evrulönd og berum saman 15 milljóna króna verðtryggt húsnæðisslán, í Íslenskum krónum, sem tekið var árið 2000, þá hafa í dag verið greiddar af því 16 milljónir og eftirstöðvarnar eru 27 milljónir. Í Evrulandi er búið að greiða 15 milljónir af sambærilegu láni en eftirstöðvarnar eru 10  milljónir. Munurinn er því samtals 18 milljónir. Þetta þýðir að íslenska fjölskyldan er að greiða 1.5 milljónum króna meira í fjármagnskostnað  á ári en sú evrópska, eða 125.000 krónur á mánuði. Það munar um minna.

Vegna krónunnar, verðtryggingarinnar og gjaldeyrishaftanna eru hátækni- og nýsköpunarfyrirtæki ekki með Ísland inni í myndinni og hafa hátæknifyrirtæki eins og t.d. Össur og Marel að verulegu leyti flutt starfsemi sína frá Íslandi. Ef málin eru skoðuð fordómalaust er ljóst að það að standa utan ESB er ávísun á fábreyttara atvinnulíf og verri lífskjör.

Ef við ætlum að losna við verðtryggingu og gjaldeyrisshöft og koma í veg fyrir að Ísland dragist langt aftur úr hinum Norðurlandaþjóðunum í lífskjörum þá verður það ekki gert öðruvísi en með ESB aðild og sem nánustu  samstarfi við nágranna- og vinaþjóðir.