Árið 1950 kom þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, Robert Schuman, fram með hugmyndina um að stofnað yrði til samstarfsvettvangs varðandi framleiðslu og viðskipti á kolum og stáli, en tillagan byggði á hugmynd samlanda hans, Jean Monnet.  Þessar hugmyndir urðu þekktar sem Schuman-yfirlýsingin er þróaðist síðan yfir í Kola- og stálbandalagið, sem nú er orðið að Evrópusambandinu. Bandalög verða yfirleitt til vegna sameiginlegra hagsmuna og það var ekki öðruvísi með bandalag þessara fornu fjenda, Frakklands og Þýskalands. Í kjölfar stríðsins sá hinn snjalli Monnet, að með bandalagi við Þjóðverja gat hann slegið tvær flugur í einu höggi. Frakkland var fátækt af kolum og þurfti því á þeim að halda frá Ruhr-héraðinu í Þýskalandi. Þýskaland var hins vegar ríkt af kolum og þótt þeir þyrftu á miklu af kolum að halda sjálfir til iðnaðar, voru þeir aflögufærir og gátu flutt út kol. Monnet gerði sér einnig grein fyrir því, að þeir sem réðu yfir kolum og stáli voru ekki aðeins í stakk búnir til að halda uppi öflugum hefðbundnum iðnaði, heldur einnig hergagnaiðnaði. Með því að efla viðskipti milli landanna voru í senn efnahagslegar framfarir tryggðar og jafnframt friður milli tveggja stærst þjóða á meginlandi Evrópu. Þjóðir Evrópu eru nú 60 árum eftir að yfirlýsingin kom fram svo tengdar hvor annarri með viðskiptum að ófriður þeirra á milli er gjörsamlega óhugsandi.

Margir halda því fram, að verið sé að búa til einhverja „samevrópska“ þjóðernistilfinningu, sem sé í raun og veru alls ekki til. Eitthvað er auðvitað hæft í þessari fullyrðingu, en ég hvet það fólk sem heldur þessu fram til að lesa frábæra bók Guðmundar Hálfdánarsonar, Íslenska þjóðríkið, sem kom út hjá Hinu almenna íslenska bókmenntafélagi árið 2007. Þar kemur sitthvað fram, sem sýnir fram á að það hugarástand, sem við skiljum sem þjóðernistilfinningu og höldum að sé ævaforn tilfinning, er alls ekki jafn ný tilfinning og menn halda. Sé horft til sögunnar er langt frá því að hægt sé að fullyrða, að landamæri hafi alltaf verið dregin upp eftir því hvaða þjóðir bjuggu á hverju svæði. Í raun er enn þann dag í dag erfitt að tala um að ákveðnar þjóðir innan Evrópu búi allar í sjálfstæðum ríkjum eða búi allar innan sömu ríkja. Allar eru þessar þjóðir þó stoltar af uppruna sína, tungumáli og menningu og gildir það jafnt um Baska á Spáni, Kelta í Bretagne, Wales eða Skotlandi, Sorba í Þýskalandi og tugi annarra þjóða, sem búa víð og dreif um Evrópu. Þannig hef ég lengi haldið því fram, að bændur sem tala frísnesku í norðurhluta Þýskalands eiga meira sameiginlegt með frísum í Hollandi. Þjóðverjar í norðurhluta Þýskalands eru að mínu mati líkari Dönum en Bæjurum, hugsunarháttur Tékka og Ungverja er líkari hugsunarhætti þjóðverja og Austurríkismanna en „slavneskra frænda“ þeirra í Hvíta-Rússlandi, Úkraníu eða Rússlandi og svona mætti lengi telja. Landfræðileg lega, samskipti þjóða árhundruðum og sameiginleg saga og örlög hafa meira að segja en margan grunar.

Að mínu mati er nefnilega eitthvað til sem heitir að vera íbúi Evrópu og það eru til samevrópsk einkenni. Sjálfur flutti ég til Þýskalands aðeins 25 ára gamall og bjó þar í 12 ár. Ég fann strax til ákveðins skyldleika við Þjóðverja og Hollendinga, sérstaklega þeirra sem bjuggu í norður- og miðhluta Þýskalands. Þegar ég ók í gegnum Danmörku og Svíþjóð varð þessi tilfinning enn sterkari og þegar til Noregs kom var maður næstum því kominn heim til sín. Ég dvaldi einnig rúmlega ár í Sviss og mánuðum saman í Frakklandi og Ítalíu og þótt þessi samevrópska tilfinning hafi ekki verið jafn sterk þar, má þó segja að maður hafi fundið til stekrar samkenndar með þessum þjóðum, kannski vegna þess að ég var að syngja og við töluðum sameiginlegt tungumál tónlistarinnar. Vagga menningar Evrópu og heimspeki var í Grikklandi til forna og segja má æskunni hafi verið eytt í ríki Rómverja, þangað sem við sóttum Rómarréttinn, en unglingsárunum síðan í nokkru óstýrilæti í Þýskalandi, Frakklandi og öðrum ríkjum Mið-Evrópu, en þaðan er stór hluti okkar menningar sóttur. Það er enginn efi í mínum huga mínum, að okkar heimili meðal þjóðanna er að finna innan Evrópusambandsins.

Guðbjörn Guðbjörnsson. Færslan birtist fyrst á bloggi höfundar á Eyjunni.