„Við erum reyndar stöðugt að laga íslenska löggjöf að regluverki ESB í gegnum EES-samninginn, á þessu ári stefnir í að við munum taka yfir 300 nýjar lagagerði í gegnum hann,” segir Stefán Haukur Jóhannesson, formaður samninganefndar Íslands í aðildaviðræðum við ESB í ágætu viðtali í Fréttablaðinu 27. nóvember sl. Þar ræðir Stefán meðal annars stöðu viðræðnanna og svonefnda IPA styrki en ljóst er að íslensk stjórnvöld eru, hvort sem þeim líkar betur eða verr, skuldbundin vegna EES til að vinna ýmis þeirra verkefna sem hægt væri að nýta þessa styrki til.

Ummæli Stefáns um þá aðlögun að ESB sem á sér stað í gegnum EES samninginn eru hluti af umræðu hans um fullyrðingar sumra þingmanna á Alþingi þess efnis að engar aðlaganir verði gerðar að ESB fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Í framhaldi bætir hann við: “En við höfum líka í gegnum tíðina, óháð EES og aðildarviðræðum, óskað eftir að taka þátt í ýmsum hlutum, svo sem viðskiptakerfi með losunarheimildir og því að vera þátttakendur í loftferðasamningum. Það hafa því og geta komið upp mál þar sem við teljum æskilegt að laga okkur að ESB. Það má nefna að í skýrslu ESB um umsókn Íslands var vikið að því að bæta þyrfti sjálfstæði dómara og íslensk stjórnvöld gerðu það því þau töldu það skynsamlegt, óháð áliti ESB.”

Í niðurlagi viðtalsins segir Stefán að hann sé “í sjálfu sér sammála því að það sé óskynsamlegt að íslensk stjórnvöld fari í viðamiklar stjórnsýslubreytingar áður en þjóðin er búin að segja álit sitt. En ef ríkisstjórninn kemst að þeirri niðurstöðu að það sé æskilegt eða þjóni hagsmunum okkar að gera einhverjar breytingar, þá er það sjálfstæð ákvörðun, alveg eins og var með dómarana, í samráði við Alþingi og hagsmunaaðila.”