Í grein dagsins fjallar Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, um EES-samninginn og kosti hans, sem og möguleikana sem aðild að ESB veitir okkur, en EES gerir ekki. Þá veltir Guðmundur upp spurningunni um fullveldisframsal og stjórnarskrána, sem og hugmyndir Stjórnlagaráðs um fullveldisframsal.

Ísland hefur verið aðili að EES frá árinu 1970. Kostir þess samstarfs fyrir Ísland hafa verið óumdeildir. Vegna EES samningsins bera u.þ.b. 90% af útfluttum sjávarafurðum frá Íslandi til ESB svæðisins enga tolla samkvæmt þeim skilyrðum sem samið var um í EES-samningnum. Evrópska efnahagssvæðið er stærsta markaðssvæðið sem Íslendingar hafa aðgang að, rúmlega 80% af öllum útflutningi frá Íslandi fer til ESB. Útflutningsverðmæti sjávarafurða á Íslandi er um 40% af heildarverðmæti vöruútflutnings landsins.

Það sem skiptir öllu máli fyrir bæði íslenskan sjávarútveg og landbúnað í tengslum við aðildarviðræður að ESB, er sú staðreynd að í aðild felst eina fyrirsjáanlega tækifæri íslendinga til þess að opna á stóran erlendan markað með fullunnar vörur. Allt slíkt er í dag takmörkunum háð sem myndu falla niður við aðild, en með því að hafna viðræðum að ESB má leiða að því allnokkrum líkum að EES samningurinn verði þá endurskoðaður og þar með muni efnahagslegt fullveldi Íslands glatast og ósigrandi skuldaveggur sem mun leiða til þess að lífskjör munu falla umtalsvert á Íslandi.

Sumir halda því fram að í núgildandi stjórnarskrá séu ákvæði sem hindri að Ísland gangi í ESB. Þar er vísað í 2. grein núgildandi stjórnarskrá þar sem stendur, „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdavaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“ Einnig er vísað í 16. grein en þar stendur, „Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð og hefur forseti þar forsæti.  Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.“ Í þessum greinum er hvergi tiltekið að bann sé við framsali.

Ef samningar nást við ESB mun sá samningur fela í sér nokkurt fullveldisframsal. Alþingi afgreiddi samninga við EES án þess að bera það undir þjóðina. Stjórnlagaráð vildi koma tryggilega í veg fyrir að þann leik væri hægt að endurtaka. Í 111. gr. frumvarps Stjórnlagaráðs stendur: „Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

Er hægt að taka skýrar til orða?

Fullveldisframsal verður að bera undir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, Alþingi verður ætíð að fara að þjóðarvilja. Í drögum að nýrri stjórnarskrá er sannarlega ekki verið að lauma Íslandi inn í ESB án þess að þjóðin fái að segja sitt álit. Ætli stjórnmálamenn að færa sjálfstæði landsins til ríkjasambands, verður það ekki gert nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni verður ekkert annað en ofbeldi sem beint er gegn henni. Vilji þjóðarinnar er vilji samfélagsheildarinnar og sá vilji fer saman við almannahagsmuni. Stjórnvald sem vill kallast réttmætt og búa þjóð sinni réttarríki, verður hverju sinni að lúta skilyrðislaust niðurstöðum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Á þjóðfundi var áberandi ákall um að hið endanlega vald væri í reynd og í verki hjá þjóðinni. Hávært ákall um meira lýðræði, skilvirkara og fjölbreyttara lýðræði. Virkt lýðræði. Þangað stefnir þjóðin markvisst og hiklaust.