Flest bendir til að framundan sé tvískiptur innri markaður með fjármálaþjónustu í Evrópu þar sem annars vegar verði bankabandalag sem nái yfir Evrusvæðið og eftir vill fleiri af ríkjum Evrópusambandsins en hins vegar ríki á borð við Bretland, Svíþjóð og Tékkland sem ekki vilja undirgangast það nýja regluverk sem felur í sér sameiginlegt fjármálaeftirlit, sameiginlegan innistæðutryggingasjóð og sameiginlega sjóði vegna banka sem lenda í vanda.

Þetta kom fram í erindi Tómasar Brynjólfssonar, hagfræðings og fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins í Brussel, á súpufundi Sterkara Íslands á þriðjudag.

Um fimmtíu gestir hlýddu á erindi Tómasar sem fjallaði um Evruna og leiðina að lausn skuldavandans.

Tómas rakti að vandi evrusvæðisins væri þríþættur. Hagvaxtarvandi hefði lengi verið viðvarandi í álfunni og samkeppnisstaða flestra ríkja, annarra en Þýskalands, hefði lengi farið versnandi vegna þess að launakostnaður hefði vaxið umfram getu efnahagslífsins. Annan þátt vandans, skuldavandam mætti rekja aftur til tilurðar evrunnar en þá hefðu langtímavextir ríkisskulda allra ríkja evrusvæðisins orðið þeir sömu, og vaxtakostnaður ríkja hefði ekki endurspeglað gæði hagstjórnar í einstökum ríkjum. Ekki hefði verið tekið á þessum vanda í tæka tíð fyrr en hann sprakk upp á yfirborðið þegar efasemdir fóru að vakna um stöðu Grikklands. Þriðja þátt vandans mætti rekja til náinna tengsla fjármálastofnana og ríkissjóða. Bankakerfi álfunnar væru stór og fáir og stórir bankar hafi verið ráðandi og áhætta ekki jafndreifð og til dæmis í Bandaríkjunum. Evrópskir bankar hafi verið umsvifamiklir í kaupum á ríkisskuldabréfum evruríkja, sem hafi verið talin áhættulaus fjárfesting. Þá hafi verið horft fram hjá þeirri hætti sem fælist í óvissu um innistæðurtryggingar og eftirlit með starfsemi banka yfir landamæri; bankakerfið hafi verið samevrópskt en einstök ríki hafi borið áhættuna og ábyrgð á eftirliti.

Hann lýsti einnig þeirri lausn sem nú er í burðarliðnum en eins og kunnugt er hefur verið stofnsettur stöðugleikasjóður evrusvæðisins sem mun geta veita allt að 500 milljarða evra lán úr björgunarsjóði til þeirra ríkja sem verst standa. Einnig er nú unnið að undirbúningi þess að koma á laggirnar sameiginlegu bankaeftirliti og innistæðutryggingakerfi og vonast er til að tillögur þess efnis líti dagsins ljós fyrir áramót.

Tómas sagði að skilyrði þau sem fylgja muni lánum úr stöðugleikasjóðnum muni þrýsta á um að skuldugustu ríkin fylgi eftir nauðsynlegri aðlögun ríkisfjármála og efnahagsstefnunnar.

Unnið verði að því að koma á bættri og sameiginlegri umgjörð efnahagsmála á evrusvæðinu þar sem eftirlit með efnahagslegu ójafnvægi verði aukið, og þar sem áhrif framkvæmdastjórnarinnar á sviði efnahagsmála aukist en að sama skapi dragi úr svigrúmi einstakra aðildarríkja.

Þetta bankabandalag sem nú sé í burðarliðnum með sameiginlegu eftirliti og sameiginlegum innistæðutryggingum og sjóðum vegna banka sem lenda í erfiðleikum muni breyta Evrópusambandinu varanlega en jafnframt sé ljóst að skoðanir séu skiptar innan Evrópusambandsins vegna málsins og ríki eins og Bretland, Svíþjóð og Tékkland muni að líkindum ekki undirgangast hinar nýju reglur. Því virðist stefna í tvískiptan innri markað með fjármálaþjónustu í náinni framtíð.