Í grein dagsins fjallar Leifur Björnsson, rútubílstjóri og leiðsögumaður um þrjá mikilvæga þætti þegar kemur að umræðunni um Evrópusambandsaðild, en það eru gjaldmiðilsmál, útflutnings- og samkeppnisgreinar. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Gjaldmiðilsmálin hafa verið í brennidepli síðustu misserin, en það er mikilvægt að horfast í augu við þá staðreynd að því miður eru einungis tveir möguleikar í stöðunni.

Annars vegar að ganga í Evrópusambandið, komast inn í EMR 2, komast út úr gjaldeyrisshöftunum og verðtryggingunni með aðstoð Seðlabanka Evrópu og taka upp evru í fyllingu tímans.

Hins vegar að hanga á krónunni um ófyrirsjánlega framtíð og þá með gjaldeyrisshöftum og verðtryggingu.

Í byrjun ætla ég að fjalla um tvö lönd þar sem aðstæður eru gerólíkar því sem er á Íslandi. Svisslendingar neyddust til að tengja sinn gjaldmiðil við evruna vegna þess að miklir fjármagnsflutningar voru af evrusvæðinu til Sviss og svissneski frankinn styrktist fram úr hófi. Þeir fóru því að kaupa evrur í stórum stíl til að veikja eigin gjaldmiðil og tryggja þannig hagsmuni útflutnings- og samkeppnisgreina og ferðaþjónustu í Sviss.

Norðmenn eru að hugsa um að fara sömu leið enda hefur norska krónan verið að styrkjast af sömu ástæðum og hjá Svisslendingum og staðan hjá frændum okkar er þannig að aðrar útflutningsgreinar enn olíuiðnaðurinn líða fyrir of sterkt gengi norsku krónunnar.

Það eru engar líkur á að þessi staða komi upp hjá okkur eða að við getum tekið upp annan gjaldmiðil einhliða. Við búum við það að alltof margir vilja yfirgefa krónuna en ekki koma inn með fjármagn eins og í Sviss og Noregi, t.d.  lífeyrissjóðirnir sem vilja geta fjárfest hluta fjármuna sinna erlendis og einstaklingar sem eiga sparifé og vilja getað ávaxtað eitthvað af því erlendis.

Þar fyrir utan er gríðarleg snjóhengja af erlendum krónubréfum sem eru læst hér inni vegna gjaldeyrisshaftanna. Auk þess sem kröfuhafar föllnu bankanna hafa verið að fá greiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna í íslenskum krónum sem einnig eru læstar hér inni vegna gjaldeyrisshafta. Talað er um 700 til 800 milljarða í þessu samhengi. Það er því ljóst að gjaldeyrisshöftin verða ekki afnuminn án aðstoðar Seðlabanka Evrópu og einhliða upptaka annars gjaldmiðils er illmöguleg.

Íslenska krónan er örmynt 319 þúsund manna þjóðar. Raunvextir eru neikvæðir og þar fyrir utan er skattlagning á hinum neikvæðu raunvöxtum. Þrátt fyrir þetta er fjárfesting sú minnsta á lýðveldisstímanum. Arðsömustu viðskiptaflétturnar snúast um að komast hjá því að flytja gjaldeyri til baka til landsins; keypt eru verðmæti sem hægt er að hafa með sér út til að selja, eða aðrar flóknar viðskiptafléttur á gráu svæði. Það er því ekki mögulegt að fjármagna upptöku annars gjaldmiðils einhliða, hver vill verðlausar íslenskar krónur fyrir hvort heldur sem er norska krónu, Kanadadollara, Bandaríkjadollar eða evru? Getur einhver bent á einhvern erlendan aðila sem er tilbúinn að lána Íslendingum fyrir kostnaðinum við einhliða upptöku annars gjalmiðils eftir að erlendir aðilar hafa tapað 7000 til 8000 milljörðum á íslenska bankahruninu? Ef svo er ekki er tómt mál að tala um einhliða upptöku annars gjaldmiðils.

En hvað með útflutnings- og samkeppnisgreinar?

Það hefur verið mikið í umræðunni að íslenska krónan og veiking hennar hafi hjálpað okkur að komast út úr kreppunni, það er rétt svo langt sem það nær, en gleymist þá gjarnan að kreppan sem við erum í hefði ekki orðið jafn mikil ef við hefðum verið með evru. Innstreymi erlends lánsfjárs og 27% viðskiptahalli árið 2006 hefði ekki verið mögulegur nema vegna jöklabréfanna og innstreymi erlends áhættufjár í vaxtamunaviðskiptum.

Vissulega er samkeppnisstaða útflutnings- og samkeppnisgreina betri og framlegð hærri vegna veikingar krónunnar, þau fá fleiri krónur fyrir sína framleiðslu eða sölu á þjónustu en á móti kemur að öll innflutt aðföng hafa hækkað í verði og skuldir rokið upp.

Útflutningstekjur stóriðju og sjávarútvegs í erlendum gjaldeyri hafa mjög lítið með gengi krónunnar að gera. Þessum greinum eru þröngar skorður settar, annars vegar af stærð fiskistofna og hins vegar af orkuauðlindum.

Sú grein sem hefur aftur á móti blómstrað vegna lágs gengis krónunnar er ferðaþjónustan. En þar hjálpar líka mikil ókeypis auglýsing vegna bankahrunsins og eldgossins í Eyjafjallajökli og sú staðreynd að stjórnvöld hafa staðið sig vel í landkynningu.

Á Viðskiptaþingi 2012 kom það skýrt  fram í erindi forstjóra stoðtækjafyrirtækisins Össurar að íslenska krónan væri eins og fíllinn í stofunni og fjölskyldur væru stöðugt önnum kafnar við að moka út því sem frá honum kæmi. Það hefur komið fram bæði hjá forstjóra Össurar og nú nýverið hjá forstjóra Marel að núverandi ástand með gjaldeyrisshöft og verðtryggingu getur ekki gengið til lengdar og gæti hrakið þessi hátæknifyrirtæki úr landi.

Ég vil að lokum vitna í orð Hugrúnar Daggar Árnadóttur í erindi sem hún flutti á viðskiptaþingi 2012.

Hugrún Dögg Árnadóttir, framkvæmdastjóri KronKron, fjallaði á Viðskiptaþingi 2012 um virði hönnunar og þau tækifæri sem Íslendingum stendur til boða á því sviði. Nefndi hún sínar verslanir sem dæmi um hraðan vöxt hönnunar síðustu ár, en skóverslunin Kron var opnuð árið 2000 og haustið 2008 var fyrsta skólínan sett á markað. Í millitíðinni opnaði Hugrún fataverslunina KronKron árið 2004 og fyrsta fatalínan var sett á markað 2011. Nú selja þau í yfir 80 verslanir í 35 löndum víðsvegar um heim.

Hugrún ræddi um umfang fatahönnunar og nefndi að atvinnugreinin veltir orðið um 4 mör. kr. árlega. Þrátt fyrir hraðan vöxt hönnunar hérlendis ver hið opinbera eingöngu 37 mkr. í styrki til greinarinnar af rúmlega 3 ma. kr. heildarframlögum til listgreina, þ. á m. bókmennta, kvikmyndagerðar og tónlistar. Hugrún fagnaði því þó að talsverð vitunarvakning hefur orðið hér á landi varðandi gildi hönnunar og nefndi t.d. að hönnun hefði eflaust ekki verið efni Viðskiptaþings fyrir einhverjum árum.

Þá ræddi Hugrún um íslenskt rekstrarumhverfi, sem gerir hönnunarfyrirtækjum afar erfitt fyrir. Hugrún nefndi þar t.d. að hönnunarfyrirtæki lendi í ýmsum vandræðum í tolli vegna sýnishorna. Mikinn tíma tekur að fá þau úr tollinum vegna óvissu um tollverð þeirra. Þá er útflutningur almennt erfiður því Ísland er ekki aðili að svokölluðu EORI kerfi og enginn kannast við EES samninginn. Því kemst varan varla frá verksmiðjunni á Spáni og ef hún kemst þaðan þá er hún iðulega stoppuð í tollinum í innflutningslandinu. Hægt væri að flytja allt til Íslands og aftur út en það væri of kostnaðarsamt.

Vegna þessa sagði Hugrún að flest hönnunarfélög væru orðin skráð félög í Evrópu. Það væri vilji þeirra til að halda Kron sem íslensku félagi, en nú eftir 4ja ára hark hér heima ákváðu þau nýlega að opna dreifingarfyrirtæki í Hollandi og engin af áðurnefndum vandamálum hafa komið upp síðan. Virði hönnunar væri því ekkert ef ekki væri hægt að stunda hönnun hérlendis og halda hönnunarfyrirtækjunum heima.

Þess má geta að gerist Ísland aðili að ESB er engu meiri skriffinska og tollar við að flytja vörur frá  Madrid á Spáni til Reykjavíkur en við að flytja vörur milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Það virðist liggja nokkuð ljóst fyrir, eftir að hafa lesið það sem forstjórar þessara þriggja fyrirtækja Össurar, Marel og Kron Kron hafa fram að færa, að ef hátækni, hönnunar- og sprotafyrirtæki eiga að geta starfað hérna til lengri framtíðar þá verðum við að ganga í ESB, komast inn í ERM 2 og taka upp evru sem lokamarkmið.