Í dag, þann 26. apríl, hefur farið fram umræða á Alþingi um utanríkismál Íslands, sem að miklu leyti hefur fjallað um Evrópusambandsaðild Íslands. Þegar þetta er ritað stendur umræðan ennþá yfir.

Til umræðu er skýrsla Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, um utanríkis- og alþjóðamál landsins, sem lögð var fyrir þing.

Í framsöguræðu utanríkisráðherra, sem fylgdi skýrslunni, fjallaði hann um Evrópumálin, og þar segir meðal annars:

„Staða viðræðnanna er þannig að í lok mars höfðu 15 kaflar verið opnaðir og 10 lokað. Það þýðir að á þeim níu mánuðum sem sjálfar viðræðurnar hafa staðið höfum við opnað tæplega helming þeirra 33ja kafla sem um þarf að semja, og samið um næstum þriðjung. Við gerum ráð fyrir að opna allt að fimm samningskafla í júní, og að í lok dönsku formennskunnar verði Ísland búið að afhenda samningsafstöður í alls 29 köflum, þ. á m. um matvæli, gjaldmiðilinn, umhverfið og byggðir.“

Þá segir einnig að stefnan sé tekin á að opna kaflana um sjávarútveginn og landbúnaðarmál sem fyrst, en endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB hefur tafið fyrir opnun á þeim kafla. Opnunarviðmiðin um landbúnaðarkaflann séu hins vegar í vinnslu.

Loks sagði utanríkisráðherra að „Aðild að Evrópusambandinu snýst um langtímahagsmuni fyrir Ísland, um efnahagslegan stöðugleika, um afnám gjaldeyrishafta, um lægri vexti, um lægri verðbólgu, afnám verðtryggingar, og auknar evrópskar fjárfestingar. Hún snýst um að skapa þau störf sem við þurfum á að halda. Hún snýst um valkost fyrir íslensku þjóðina inn í framtíðina. Við þurfum að hafa úthald. Við þurfum úthald í aðildarviðræðunum og líka í makríl. Við getum lokið hvorutveggja, en þá þarf vitaskuld þolgæði og þokkalegt stöðumat hverju sinni.“

Hér má lesa ræðu Össurar: http://www.utanrikisraduneyti.is/media/Raedurogerindi/Framsoguraeda_utanrikisradherra_um_utanrikis-_og_althjodamal_26_april_2012.pdf

Hér er skýrsla Össurar: http://www.althingi.is/altext/140/s/pdf/1229.pdf