althingishusid

Föstudaginn 2. maí kl. 13 verður Alþingi afhent áskorun frá 53.555 kosningabæru fólki.
Fyrir hönd Alþingis taka við áskoruninni forseti Alþingis ásamt formönnum þingflokka.

Stutt athöfn verður í Skála, sem er anddyri að Alþingishúsinu.
Undirskriftirnar afhenda nokkrir fulltrúar sem tóku virkan þátt í söfnuninni.

Fjölmiðlum hefur verið boðið að vera viðstaddir.

Um áskorunina og undirskriftasöfnunina
Þann 21. febrúar 2014 lagði utanríkisráðherra fram á Alþingi þingsályktunartillögu á þingskjali nr. 635 um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, 340. mál.

Óhætt er að segja að tillagan hafi vakið hörð viðbrögð og mörgum þótt vinnubrögðin í hæsta máta sérkennileg í ljósi yfirlýsinga fyrir og eftir kosningar um meðferð aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Já Ísland ákvað að bregðast við með því að hleypa af stað undirskriftasöfnun til þess að krefjast þess að þingsályktunartillagan yrði lögð til hliðar og að boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Undirskriftasöfnunin hófst að kvöldi sunnudagsins 23. febrúar og lauk sunnudaginn 27. apríl eftir páska. Söfnunin stóð því samtals í 63 daga og er beint til 63 þingmanna.

Áskorunin er þessi:

 Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt:


Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?

Áskorunin var birt á vefsetrinu www.þjóð.is með þessum formála:

Spurningin um aðild að Evrópusambandinu er stærri og mikilvægari en svo að einstakir stjórnmálaflokkar eða ríkisstjórnir eigi að ráða svarinu.

Alþingi ber að sýna þjóðinni þá virðingu að leggja framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins í dóm allra Íslendinga.

Þess vegna er hafin undirskriftasöfnun hér þar sem skorað er á Alþingi að leita þjóðarviljans.

Alþingismenn starfa í umboði okkar. Látum þá vita hvað við viljum og skrifum undir.

Undir sjálfa áskorunina gafst gestum síðunnar kostur á að skrá sig. Þar varð að skrá nafn og kennitölu. Viðkomandi varð að vera fullra 18 ára á undirskriftardegi. Fólk gat valið nafnleynd ef það óskaði og einnig gafst kostur á að senda inn skilaboð til þingmanna.

Undirskriftum var einnig safnað með hefðbundnum hætti með því að gefa fólki kost á að skrifa undir lista. Undirskriftum var einkum safnað á höfuðborgarsvæðinu með þeim hætti.

Til þess að tryggja eins og kostur er að söfnunin yrði áreiðanleg voru þessar ráðstafanir gerðar.

  • Á síðunni var unnt að kanna hvort kennitala væri skráð. Ef viðkomandi taldi að kennitala væri ranglega skráð gat hann sent inn athugasemd og var kennitalan fjarlægð í framhaldi af því.
  • Eftir að söfnuninni lauk voru allar kennitölur og nöfn keyrð saman við þjóðskrá af fyrirtækinu Ferli ehf. skv. sérstökum samningi við Þjóðskrá.

Einungis þær undirskriftir sem stóðust framangreint voru teknar gildar og reyndust þær vera 53.555, sem er um 22,1% kosningabærra manna.

Ábyrgðarmaður söfnunarinnar er Jón Steindór Valdimarsson formaður samtakanna Já Ísland, en stjórn þeirra ákvað að hrinda henni af stað.