Í Fréttablaðinu í dag, þann 10. nóvember, birtist grein eftir G. Pétur Matthíasson, sem fjallar um ályktun landsfundar Vinstri-grænna um Evrópumálin. Í greininni eru þær staðreyndavillur sem birtast í ályktuninni leiðréttar. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan:

Það er gott að nýafstaðinn landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telji það „eitt af forgangsverkefnum flokksins, flokkseininganna og þingflokksins að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar“ líkt og segir í landsfundarályktun um aðildarviðræðurnar. Ekki veitir af. En það er eitt vandamál þar á ferð. Formálinn að þessari fínu niðurstöðu ber vott um töluverða fákunnáttu um Evrópusambandið og samningsferlið sem nú stendur yfir.

Í ályktuninni segir að það eigi að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn á náttúruauðlindum. Það hefur verið svo ofarlega í umræðunni að auðlindir hvers ríkis innan Evrópusambandsins eru á forræði þess sjálfs að það er óskiljanlegt að landsfundur eins stærsta stjórnmálaflokks landsins skuli halda annað. Annað gildir reyndar um sjávarútveginn en við skulum sjá hvað um semst í þeim efnum, en vatnsorkan verður til dæmis á okkar framfæri hvað sem öllu öðru líður.

Hvaða mikla skerðing lýðræðis er það sem felst í aðild að ESB umfram það sem nú er? Með aðild mun lýðræði Íslendinga ekki skerðast heldur frekar aukast. Við fáum að kjósa sex þingmenn á Evrópuþingið, við fáum einn framkvæmdastjóra og setu í ráðherraráðinu og leiðtogaráðinu. Ísland fær rödd og fær áhrif, reyndar langt umfram höfðatölu, til að hafa eitthvað að segja um það sem nú er samþykkt orðalaust í gegnum EES-samninginn. Sjálfstæði okkar mun aukast við aðild þótt fullveldi verði gefið eftir á mjög takmörkuðum sviðum.

Með Lissabon-sáttmálanum var ekki verið að stofna Evrópuher, líkt og ýjað er að í ályktun landsfundarins. En Vinstri-græn virðast ekki gera sér grein fyrir því að með sáttmálanum var bein þátttaka almennings bundin í lög. Þar sem flestar ákvarðanir ráðherra- og leiðtogaráðs eru teknar á grundvelli samkomulags allra þjóða hefur hver þjóð í reynd neitunarvald. Væri nú ekki skemmtilegt fyrir Vinstri-græna að hugsa til þess að flokkurinn gæti, ef þannig stæði á, og ef einhverjum dytti sú fásinna í hug að stofna Evrópuher, stöðvað þá uppbyggingu?

Það ætti ekki að þurfa að segja stjórnmálamönnum á Íslandi í dag að það er engin aðlögun í gangi, nema sú sem á sér stöðugt og gegndarlaust stað í gegnum EES-samninginn. Einungis er farið fram á það að Íslendingar segi til um hvernig þeir ætli að uppfylla aðildarsamninginn verði hann samþykktur af þjóðinni. En steininn tekur úr, kannski þann sama og sumir stinga hausnum í, þegar skrifað er í ályktuninni að félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks eigi undir högg að sækja innan Evrópusambandsins.

Vinstri-græn, sum hver, vilja takast á við heimskapítalismann. Gott og vel með það. En það vill þannig til að vald risafyrirtækjanna er orðið það mikið að ekki einu sinni ríki á borð við Þýskaland geta tæklað þau, ein og sér. En það er hægt innan Evrópusambandsins. Það má til dæmis sjá á því hvernig ESB hefur sett flugfélögum stólinn fyrir dyrnar og staðið vörð um réttindi farþega, hvernig ESB hefur tæklað símafyrirtækin og neytt þau til að lækka gjaldskrá sína varðandi reikisímtöl. Neytendur eiga því félagslegt skjól í Evrópusambandinu.

Og fæðu- og matvælaöryggið sem hverfur eins og dögg fyrir sólu stöðvist flutningar til landsins. Með aðild má hinsvegar reikna með að við stæðum mun betur en án aðildar og gætum tryggt nauðsynleg aðföng miklu lengur en ella.
Að mínu mati mætti herða róðurinn við að upplýsa Vinstri-græn um hvað Evrópusambandið snýst í raun og veru, áður en menn fara þar sjálfir að upplýsa kjósendur sína. Því ekki hef ég neina trú á því að Vinstri-græn hyggist upplýsa þann annars ágæta hóp um ranghugmyndir einar.