Í Fréttablaðinu í dag, þann 26. janúar, birtist grein eftir Ásdísi J. Rafnar, hæstaréttarlögmann, þar sem hún fjallar meðal annars um íslenska samskiptahefð, félagslegan auð, Evrópusambandsaðild og framtíð þjóðarinnar. Hér fyrir neðan má lesa greinina í heild sinni.

Íslensk samskiptahefð hefur um nokkurt skeið helst gengið út á að gera þann sem er ekki sammála þér í einu og öllu að persónugervingi hins illa. Er það í sjálfu sér rannsóknarefni hvers vegna samskipti á opinberum vettvangi eru svona neikvæð og málamiðlanir og samvinna fjarlægur kostur. Um það er sem betur fer rætt þessa dagana. Hatrömm og tilfinningaþrungin samskipti manna eru engum til gagns, allra síst þjóðarskútunni. Sá heimur sem maðurinn skapar, verður spegilmynd af sjálfum honum. Stjórnmálaumræðan er hér næsta útbrunnin og öll málefni í meira lagi sundurlaus.

Það er mikilvægt að menn færi rök fyrir skoðunum sínum, því þá þjálfa þeir á sama tíma hugsun sína og skilning og jafnframt hugsun þeirra sem fylgjast með orðræðunni. Í fjölmennum samfélögum lærist mörgum snemma að virða viðurkennda samskiptasiði ef þeir vilja ná markmiðum sínum og gera samfélagið ánægjulegra. Meðal annars að sýna nærgætni, áhuga og virðingu í hvers konar mannlegum samskiptum.

Í því samhengi er fjallað um mikilvægi þess sem kallað er social capital eða félagslegur auður og við Íslendingar þurfum að rækja betur, ekki síst til að ná okkur út úr efnahagsörðugleikunum. Frelsi og jafnrétti – af hverju ekki líka bræðralag. Er það ekki misskilningur að það hugtak sé gamaldags ?

Evrópusambandið er samband fullvalda lýðræðisríkja sem hafa ákveðið að hafa með sér mjög nána samvinnu. Um töku ákvarðana innan þessa samstarfs gilda ákveðnar reglur. Samvinna þeirra og ákvarðanir krefjast samráðs, samskiptahæfni fulltrúa þeirra og virðingar fyrir málefnum hverrar aðildarþjóðar. Áhugavert væri að sjá þróun íslenskrar umræðu- og samskiptahefðar í því umhverfi. Það væri góður skóli og líklega sá eini sem er í boði á því sviði.

Hvernig eflum við framtíð þjóðarinnar ?
Leita þarf allra leiða til að tryggja farsæla framtíð þjóðarinnar. Af henni höfum við áhyggjur. Eru stjórnmálaflokkarnir að efla okkur trú á betri tíð á Íslandi með blóm í haga?

Hugsanlega felast mestir möguleikar í þeirri ákvörðun Alþingis að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið í þeim tilgangi að fá niðurstöðu um hvort aðild að sambandinu væri okkur hagstæð eða ekki að mati kosningabærra manna. Enginn getur sagt til um það fyrirfram hvað út úr þeim viðræðum kemur, þótt öðru sé stundum haldið fram. Það er mikilvægt að nýta þetta tækifæri til þess að yfirfara alla okkar hagsmuni gagnrýnum augum og vinna að úrbótum á þeim sviðum sem nauðsyn ber til. Spyrja í einstökum tilvikum hvernig þetta væri ef við værum aðilar að ESB! Ef til vill hafa einhverjir stjórnmálaflokkar þessar spurningar uppi innan sinna vébanda þótt það fari ekki hátt.

Ljóst má vera að meirihluti þjóðarinnar styður vestræna samvinnu. Það er því fullt tilefni til að skoða það ítarlega með sama hætti og Norðmenn hvort það sé okkur ekki fyrst og fremst til vansa að vera ekki meðal þátttökuþjóðanna af fullum þunga, í stað þess að veita einhliða viðtöku löggjöf og reglum sem þær ákveða á grundvelli EES samningsins. Annars er samanburður á aðstöðu Íslands og Noregs alltaf önugur, því staðreyndin er sú að Norðmenn eru efnaðir, en Íslendingar berjast í bökkum.

Tekið héðan: http://visir.is/utbrunnin-umraeduhefd/article/2012701269976