Þann 12. september síðastliðinn flutti José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, árlega stefnuræðu sína á Evrópuþingingu í Strassborg.

Barroso hóf ræðu sína á því að segja að Evrópa þurfi á nýrri stefnu að halda, nýrri stefnu sem byggi ekki á gömlum hugmyndum, heldur á nýrri hugsjón, þar sem alþjóðavæðing kalli á meiri Evrópusamruna, sem þarfnast meira lýðræðis, nánar tiltekið hins evrópska lýðræðis, til þess að verja gildi ESB; frelsi og hagsæld, í hinum alþjóðavædda heimi.

Barroso nefndi síðan þann vanda sem Evrópa stendur frammi fyrir í dag og sagði að þjóðirnar í Evrópu þyrftu að vinna að því saman að leysa vandann svo þau geti haldið áfram að vaxa saman, og að allar hugmyndir um að auðveldara sé að komast út úr þessum vanda uppá eigin spýtur séu falskar. Til þess að þetta verði að raunveruleika þurfi til djúpt og einlægt efnahagssamband sem byggir á góðu stjórnmálasambandi.

Barroso kallaði eftir breytingum og sagði að brýnasta verkefnið í dag væri að tryggja stöðugleika á evrusvæðinu til þess að byggja upp almennilegt efnahagssamband. Það væri sameiginlegt verkefni aðildarríkjanna og stofnana Evrópusambandsins. Barroso nefndi síðan að hann væri sannfærður um það að ef Grikkir stæðu við skuldbindingar sínar ættu Grikkir að vera áfram innan evrusamstarfsins – innan Evrópufjölskyldunnar.

Barroso taldi að nauðsynlegt væri að samhæfa enn frekar efnahagsstefnur aðildarríkja ESB því það væri greinilegt að aðgerðir eins aðildarríkis í efnahagsmálum hafi áhrif á önnur. Barroso kallaði því eftir sameiginlegu fjármálaeftirliti með traustari ramma og auknu eftirliti með ákvarðanatöku aðildarríkjanna þegar kemur að helstu stefnumótunum í efnahagsmálum.

Barroso bætti síðan við að:

„þegar allt kemur til alls þá byggist trúverðugleiki og sjálfbærni Efnahags- og myntbandalagsins á þeim stofnununum og þeirri pólitísku uppbyggingu sem á bakvið það er. Vegna þessa vekur Efnahags- og myntbandalagið upp spurninguna um stjórnmálasambandið.“

Barroso sagði að alvöru stjórnmálasamband byggist á því að þær aðgerðir sem farið er í á hinum evrópska vettvangi verða að einblína á stóru málefnin sem nauðsynlegt er að eiga við á hinum evrópska vettvangi. Hann sagði stjórnmálasamband einnig snúast um að uppfylla skyldur okkar á alþjóðavettvangi.

Þar af leiðandi þýði það „að deila fullveldi sínu í Evrópu að vera meira fullvalda á alþjóðavettvangi. Í þeim heimi sem við búum í í dag skiptir stærð máli. Og gildi gera gæfumuninn. Þess vegna þurfa skilaboðin frá Evrópu að snúast um frelsi, lýðræði, réttarríkið og samstöðu.“

Alvöru efnahags- og myntsamband, stjórnmálasamband, með utanríkis- og varnarmálastefnu, þýðir á endanum að Evrópusambandið sem við þekkjum í dag þarf að þróast, sagði Barroso og bætti við:

„Verum ekki hrædd við orðin: við þurfum að færast í áttina að sambandi þjóðríkja [e. federation of nation states]. Þetta er það sem við þurfum. Þetta er okkar póltíska sjónarsvið. Þetta er það sem á að stýra vinnu okkar á næstu árum.“

Barrosso tók þó skýrt fram að hann væri að kalla eftir sambandi þjóðríkja. „Ekki ofurríki, heldur lýðræðislegu ríkjasambandi þjóðríkja sem geta tekist á við hin sameiginlegu vandamál, með því að deila fullveldi sínu með þeim hætti að hvert ríki og hver borgari er betur stæður til þess að stjórna eigin örlögum. Þetta snýst um Evrópusambandið með aðildarríkjunum, ekki á móti þeim. Á tímum alþjóðavæðingar þýðir sameiginlegt fullveldi meiri völd, ekki minni.“

Þá sagðist Barroso nota viljandi orðið ríkjasamband vegna þess að á óróatímum eins og þessum eigum við ekki einungis að láta það eftir þjóðernissinnum og popúlistum að verja þjóðina. Þá sagðist hann trúa á Evrópu þar sem fólk er stolt af þjóðum sínum en einnig því að vera frá Evrópu.

Loks tók Barroso það fram að á endanum muni þurfa nýjan sáttmála til þess að koma á fót þessu ríkjasambandi og viðurkennir að það sé ekki auðvelt. Hann segir þróunina þó geta hafist undir þeim sáttmálum sem nú eru til staðar en á endanum muni þurfa að gangast í breytingar á sáttmálunum.

Fyrir næstu þingkosningar, árið 2014, mun framkvæmdastjórnin, samkvæmt Barroso, koma með tillögur að framtíðarmynd Evrópusambandsins, hugmyndir um breytingar á sáttmálunum og hvernig hægt sé að gera Evrópusambandið opnara og lýðræðislegra, fyrir fólkið.

Í lokin sagði Barroso að margir myndu eflaust halda að hér væri verið að ganga of langt, að þetta væri ekki raunhæft. Barroso vildi hins vegar spyrja á móti:

„Er raunhæft að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á? Er það raunhæft sem við erum að sjá í mörgum ríkjum Evrópu í dag? Er það raunhæft að sjá meira en 50% af unga fólkinu okkar án atvinnu í sumum aðildarríkjum? Er það raunhæft að hugsa að við getum unnið aftur traust markaðarins þegar við höfum svona lítið traust á hvort öðru?“

Barroso sagði þennan raunveruleika ekki geta gengið lengur og að þess vegna þurfi nýja hugsjón fyrir Evrópu.

Hér er ræða Barroso í heild sinni: http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=SPEECH/12/596