Þann 26. september birtist grein eftir Jón Steindór Valdimarsson, formann Já Ísland, í Morgunblaðinu. Þar fjallar Jón Steindór um rétt landsmanna til þess að kjósa um aðild Íslands að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að samningaviðræðum er lokið. Hér að neðan er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Allt er á fleygiferð í nútímanum og það sem virðist við fyrstu sýn úrlausnarefni eins ríkis hefur ófyrirséðar afleiðingar fyrir önnur. Alþjóðleg samskipti og viðskipti af ýmsu tagi gera skýra framtíðarsýn og stefnumótun í senn nauðsynlega og vandasama. Þar dugar ekki að horfa einungis í eigin rann.

Margir vildu sjálfsagt óska þess að unnt væri að gera hlé, þrýsta á pásutakkann, til að greina til fulls alla þá krafta sem virka á alþjóðlega þróun og þar með stöðu Íslands.  Þá gætu þeir náð áttum og reynt að meta hvað framtíðin muni bera í skauti sér.

Raunveruleikinn er flóknari og tíminn stendur aldrei kyrr. Þess vegna er okkur nauðugur einn kostur að vega og meta stöðuna í síbreytilegu umhverfi. Gera okkar besta til að átta okkur á líklegri þróun og taka ákvarðanir út frá því. Það verðum við að gera þó allt virðist hringsnúast og suma kunni að sundla þegar horft er yfir sviðið og kjósi þá helst að loka augunum.

Aðildarþjóðir Evrópusambandsins eru 27. Þær eru um margt ólíkar að menningu, efnahag og stærð. Það gerir samstarf þeirra vandasamt og oft á tíðum þungt í vöfum.  Hver og ein þeirra hefur sína rödd þegar sest er niður til þess að taka ákvarðanir sem varða sameiginlega heill og hagsmuni þeirra allra.

Þegar erfiðleikar steðja að, líkt og nú gerir í efnahagsmálum alls heimsins, reynir mikið á og það brakar og brestur í öllum viðum evrópska samstarfsins. Aðilarríkjunum vegnar misvel og það reynir á samstöðu til að finna lausnir.  Sumir spá því að þess sé nú skammt að bíða að bandalagið líði undir lok. Þá er gott að minnast þess að allt frá upphafi hefur Evrópusambandinu og síðar evrunni verið spáð endalokum á næstu vikum og mánuðum – þrátt fyrir það er hvort tveggja enn við líði.

Við Íslendingar höfum svo sannarlega sopið seyðið af efnhagshremmingum sem áttu upphaf sitt utan landsteinanna en leiddu í ljós bresti í okkar eigin hagkerfi. Við höfum verið upp á náð og miskunn annarra komin. Segja má að um tíma hafi samfélag okkar riðað til falls og samskipti við umheiminn verið erfið. Sem betur fer virðumst við vera að ná okkur á strik.  Það hefði ekki tekist án hjálpar frá öðrum ríkjum. Við skulum ekki gleyma því.

Ísland á í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og ganga þær samkvæmt áætlun. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ekki verði unnt að ná góðum samningi sem verði hægt að leggja fyrir þjóðina þegar þar að kemur.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu er alvörumál. Þegar við mótum okkur skoðun og tökum ákvörðun höfum við áhrif á framtíð okkar og komandi kynslóða. Þá ákvörðun er ekki skynsamlegt að taka á grundvelli skammtímahagsmuna, hvort sem þeir eru flokkspólitískir eða sérhagsmunir öflugra þrýstihópa. Hvernig vindar blása á stjórnarheimilinu eða í formannskosningum stjórnmálaflokkanna hverju sinni má ekki skipta sköpum í þessu máli. Það er miklu mikilvægara en svo.

Verkefni ríkisstjórnar, ráðherra, þingmanna, embættismanna og samningamanna Íslands er að tryggja að Ísland nái eins góðum samningi og unnt er. Síðan tökum við kjósendur við keflinu og greiðum atkvæði. Þá tökum við hvert og eitt ákvörðun á eigin forsendum í kjörklefanum. Þar ræðst hvort Ísland verður aðili að Evrópusambandinu eða ekki.

Ég sætti mig ekki við að stjórnmálaflokkar eða önnur hagsmunaöfl svipti mig réttinum til þess að kjósa um aðildarsamning. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að aðild Íslands að Evrópusambandinu sé skynsamleg. Þegar þar að kemur mun ég vega og meta kosti og galla samningsins, stöðu Íslands, stöðu Evrópusambandsins og hverjar framtíðarhorfur eru á þeim tíma. Ég er viss um að hið sama eru allir aðrir Íslendingar fullfærir um að gera áður en þeir greiða atkvæði. Ég veit líka að við verðum örugglega ekki öll sammála.

Enginn veit hver staðan verður þegar að kjördegi kemur. Þannig er það bara.

Sviptum samt ekki þjóðina valdinu til að velja eigin framtíð.