Þann 5. desember síðast liðinn birti Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, mjög áhugaverðan pistil á Pressunni. Þar fjallar Jón um þann vanda sem ESB stendur fyrir um þessar mundir og möguleg áhrif þess á aðildarumsókn Íslands sem hann telur lítil sem engin. Í pistlinum segir meðal annars:

„Meðal ástæðna fyrir aðildarumsókn eru þessar: Við erum hluti af Evrópu. Reynslan af aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) er mjög góð, en Íslendingar eru nú aðeins 2. flokks fylgiríki ESB. Fjögur svið eru utan EES: sjávarútvegur, landbúnaður, gjaldmiðill, fullveldi. Aðild þarf ekki að hnekkja stöðu þjóðarinnar á þessum sviðum, þ. á m. í sjávarútvegi. Fyrir liggur að íslensku krónunni fylgja ofurvextir, verðtrygging, sveiflur og pólitísk stýring. Framundan eru erfiðar breytingar í landbúnaði vegna alþjóðasamninga hvort sem Íslendingar ganga í ESB eða ekki.“

„Hver er vandi ESB nú? Aðildarríki brutu gegn ákvæðum Maastricht-sáttmálans sem þau þó höfðu undirritað. Auk þess urðu þau fyrir holskeflu alþjóðlegrar fjármálakreppu, en upptök hennar eru óháð ESB og evrunni. Mikill hluti fjármálamarkaðarins er ljósfælinn og stjórnmálamenn ná ekki tökum á honum. Óskhyggja, oftraust og gagnrýnisleysi virðast hafa ráðið fyrstu mótun evrukerfisins. En evran er ekki valdur vandræðanna heldur verður hún fyrir þeim.  Gagnrýnendur kenna ESB m.a. um hluti sem það getur aldrei ráðið yfir, frekar en veðrinu.“
„Að athuguðu máli verður varla séð að forsendur aðildarumsóknar Íslendinga að ESB hafi raskast eða breytst.“
Pistilinn má lesa í heild sinni hér: