Á Evrópuvefnum var nýlega spurt hvort Ísland hafi með aðildarumsókn að Evrópusambandinu gengist undir einhverjar lagalegar skyldur.

Svarið við spurningunni gefur til kynna að svo sé ekki. Á vefnum segir:

„Ekki verður séð að Ísland hafi tekið á sig nýjar lagalegar skuldbindingar með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Aðildarviðræðurnar fara fram í samræmi við ákveðinn samningsramma (e. negotiating framework) þar sem vísað er sérstaklega í 49. grein sáttmálans um Evrópusambandið (e. Treaty on the European Union) sem fjallar um aðildarumsóknir að sambandinu. Í þessum tveimur gögnum sem vísað er í hér á eftir er að finna ákvæði um aðildarferlið, sem og þau skilyrði sem Ísland þarf að uppfylla til að geta lokið samningaviðræðum og orðið aðildarríki. Í þeim felst hins vegar ekki að Ísland sé skuldbundið með einhverjum hætti.“

Þá segir einnig:

„Um aðildarumsóknir og meðferð þeirra gildir 49. grein sáttmálans um Evrópusambandið, sem segir:

Sérhvert Evrópuríki, sem virðir þau gildi sem um getur í 2. grein og einsetur sér að stuðla að þeim, getur sótt um að gerast aðili að Sambandinu. Tilkynna skal Evrópuþinginu og þjóðþingunum um slíka umsókn. Umsóknarríkið skal senda umsókn sína til ráðsins, en það skal taka einróma ákvörðun, að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina og að fengnu samþykki Evrópuþingsins með stuðningi meirihluta allra þingmanna. Taka skal tillit til skilyrða sem leiðtogaráðið hefur samþykkt að þurfi að uppfylla vegna aðildar.

Skilmálar aðildar og sú aðlögun á sáttmálunum, sem Sambandið byggir á, sem slík aðild felur í sér, skulu byggjast á samningi milli aðildarríkjanna og umsóknarríkisins. Þann samning skal leggja fyrir öll samningsríkin til fullgildingar í samræmi við stjórnskipunarreglur sínar.“

Nánar um málið má lesa hér: http://evropuvefur.is/svar.php?id=60209