„Það er erfitt að taka ákvarðanir og gera áætlanir fram í tímann á þeim forsendum hvað eigi mögulega að gera hér í framtíðinni. Það virðist vera planið að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evruna eftir einhver ár. Mér líst vel á það,“ segir Hilmar V. Pétursson, forstjóri tölvuleikjaframleiðandans CCP í viðtali í Fréttablaðinu í dag.

Ég hef alloft vitnað til ummæla hans á fundum um stöðuna á íslenska vinnumarkaðinum og muninum á hinum nú og svo þeirrar stöðu sem forsvarsmenn útvegs og landbúnaðar vitna útrekað til. Það var staðan fyrir áratug og lengra tíma síðan.

Hilmar bætir við að stjórnendur fyrirtækisins bindi vonir við að innganga Íslands inn í ESB muni leiða til þess að umhverfið sem þeir hafi starfað í síðustu ár róist og verði líkara því sem er í öðrum löndum þar sem CCP er með starfsemi. „Þar getum við gengið að flestu vísu,“ segir Hilmar.

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja erum við enn að burðast með íslensku krónuna, hina örsmáu og óstöðugu mynt. Íslenskt atvinnulíf starfar í alþjóðlegu umhverfi og við verðum að víkja frá einangrunarstefnunni. Vandamálið var ekki síst að það var nánast ómögulegt að fá krónur að láni til þess að fara út í framkvæmdir. Eitt af helstu vandamálum Íslendinga er krónan. Hún er alltof dýr og hreinlega ónothæf þegar kemur að fjármögnun stórra framkvæmda.

Það er brýnt að annar gjaldmiðill verði tekinn upp í landinu, sé horft til framtíðar. Ísland á miklar auðlindir og mun ná vopnum sínum. Það eru allar forsendur fyrir því að það sé hægt að á skömmum tíma. Ef ekki verður gripið til réttra aðgerða verður Ísland láglaunasvæði við hlið hinna norðurlandanna sem eru með lægri vexti, hærri laun, mun lægra verðlag og mun betra öryggisnet. Það kallar á fólksflótta.

Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni er lykill og grunnur að lausn annarra stórra vandamála á Íslandi og um leið forsenda endurreisnar. Það er því allra stærsta viðfangsefnið sem framundan er. Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni verður að finna á allra næstu vikum og mánuðum þannig að gengið geti styrkst um a.m.k. 30% innan árs og komist í langtíma jafnvægisstöðu (gengisvísitalan 140) eftir um eitt ár.

Hlutdeild sjávarútvegsins í þjóðarframleiðslunni er innan við 8% og skapar um þriðjung gjaldeyris. Þau 20.000 störf sem þarf að skapa á næstu 4 árum til þess að koma atvinnuleysinu niður fyrir 4% verða ekki í sjávarútvegi og landbúnaði. Ný störf verða til í sömu störfum og atvinnuleysið er nú; þjónustu og tæknigreinum. Það er því kaldranalegt fyrir atvinnulausa fólkið að heyra þá sem hafa atvinnu hafna algjörlega eina möguleikanum að koma þróuninni í réttan farveg og til framtíðar með því að nýta orkuna og byggja upp þekkingariðnað, líftækni, lyfjaframleiðslu og ferðaþjónustu.

Þessar atvinnugreinar eiga það sameiginlegt að búa við stöðugleika. Þau þurfa aðgang að erlendu fjármagni og erlendum mörkuðum, af því að heimamarkaðurinn er of smár. Okkur er lífsnauðsyn að tengjast stærra myntsvæði, sem getur fært okkur stöðugt efnahagsumhverfi. Ella munu atvinnugreinar framtíðarinnar ekki þrífast hér. Unga menntaða fólkið mun flytja úr landi og þeir sem eru að mennta sig núna koma ekki heim.