Margir sem vilja halda í krónuna og standa fyrir utan Evrópusambandið benda á það sem rök fyrir máli sínu að fall krónunnar sé að bjarga okkur núna frá enn meira atvinnuleysi og tryggja nauðsynlegan afgang að viðskiptum við útlönd. Þetta er í sjálfu sér rétt mat á aðstæðum en það verður skoða aðstæður í víðara samhengi.

Krónan og fyrirkomulag peningamála átti nefnilega sinn þátt í að koma okkur í þær efnahagslegu ógöngur sem við höfum ratað í. Gengi krónunnar var um árabil haldið óeðlilega sterku með háum vöxtum. Markmiðið var að draga úr verðbólgu og halda aftur af vexti hagkerfisins. Afleiðingin var þveröfug – neysla jókst mikið þar sem innfluttar vörur urðu óeðlilega ódýrar og mikill vaxtamunur milli Íslands og umheimsins ýtti undir gífurlegar erlendar lántökur. Þetta gerðist í skjóli góðs lánshæfismats sem eftirá að hyggja var óraunhæft.  Viðskiptahallinn jókst stöðugt og skuldir okkar í útlöndum hrönnuðust upp með tilsvarandi hætti. Góðærið á árunum 2004-2007 var einfaldlega fengið að láni í útlöndum.

Þetta gerðist með vitund og vilja stjórnvalda og peningastefnan var verkfærið sem var notað. Öllum hefði átt að vera ljóst að snörp leiðrétting myndi þurfa að eiga sér stað. Fæstir höfðu þó hugmyndaflug til að ímynda sér  það myndi gerast eins og raun bar vitni.

Fyrirkomulag peningamála og sú staðreynd að við höfum reynt að halda úti minnsta sjálfstæða gjaldmiðli í heiminum á sinn þátt í þeim efnahagsörðugleikum sem við nú glímum við. Því er ekki að neita að veik króna hjálpar til að vinna okkur út úr þeirri stöðu sem við erum komin í – gengisfallið er auðvitað ekkert annað en kjaraskerðing þeirra sem fá laun sín greidd í krónum. Veikur gjaldmiðill endurspeglar auðvitað veikleikana í hagkerfinu hjá okkur.

Vandséð er hvernig hægt er að byggja upp atvinnulíf hér til framtíðar á því sama gengisfyrirkomulagi  og ýtti undir að hér fór allt á hliðina. Aðeins einn augljós og hagkvæmur kostur er í boði fyrir okkur – aðild að ESB og upptaka evru.

Bjarni Már Gylfason