Í grein dagsins fjallar Gunnar Hólmsteinn, stjórnmálafræðingur, um málefni norðurslóða og möguleg áhrif sem Ísland gæti haft á þann málaflokk innan ESB, en breytinga er að vænta á þessu svæði. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Séu orðin „Kínverjar“ og „Grænland“ slegin inn í hina margfrægu leitarvél Google koma upp fyrirsagnir á borð við „Kínverjar seilast til áhrifa á Grænlandi,“ „Kínverjar með augastað á Grænlandi“ eða „Kínverjar vilja hraða námuvinnslu sinni á Grænlandi.“  Í frétt um hið síðastnefnda segir: „Fjölmenn kínversk sendinefnd með auðlindaráðherra landsins í broddi fylkingar er nú stödd á Grænlandi. Þar ræða Kínverjarnir við grænlenska ráðamenn um starfsemi kínverskra námufyrirtækja í landinu en þeir vilja hraða framkvæmdum við ýmis námuverkefni.

Fimm kínversk námufyrirtæki hafa sótt um vinnsluleyfi á Grænlandi en þar ætla þau m.a. að vinna járn, gull, blý, kopar og sjaldgæfa jarðmálma.

Ekki eru allir Grænlendingar hrifnir af Kínverjunum og þannig hefur dregist verulega að eitt af námufyrirtækjunum hefjist handa við stærstu járnnámu sem fundist hefur á Grænlandi.“ (FRBL/Vísir.is, 27.apríl 2012).

En hvers vegna eru Kínverjar komnir alla leiðina til Grænlands? Jú, hin gríðarstóra kínverska efnhagsmaskína þarf hráefni og það er nánast sama hvar þau er að finna, Kínverjar sækja þau, hvert á land sem er. Sama hvort um er að ræða Angóla eða Grænland.

Síðan þarf að flytja allt heila klabbið og þar kemur Atlanshafið og Norðurslóðir til sögunnar. Svæðið norður af Íslandi er að verða „heit kartafla“ í strategískum skilningi. Með opnun siglingaleiða í gegnum Norðurpólinn mun hafsvæðið í kringum Ísland gerbreyta um „karakter“ ef þannig má að orði komast. Siglingar munu að öllum líkindum stóraukast, stór og gríðarlega öflug skip munu fara þar í gegn á leið frá Evrópu til Asíu og öfugt, að ógleymdum Bandaríkjunum.

Í skýrslu sem utanríkismálaskrifstofa ESB gaf út í lok júni á þessu ári segir að í kringum árið 2050 verði opið í gegnum norðurskautið, að minnsta kosti að sumri til. Þar kemur einnig fram að árin 2005-2010 hafi verið þau fimm heitustu á þessu svæði.

Greinilegt er að innan ESB taka menn þessi mál mjög alvarlega og í skýrslunni segir að um sé að ræða gríðarlega viðkvæmt svæði, þar sem búi um fjórar milljónir manna, þar af svokallaðir frumbyggjastofnar.

Í skýrslunni segir einnig að ESB hafi breytt forgangsröðun vegna þessara mála, til að meðal annars takast á við áskoranir á sviði umhverfisbreytinga, orkumála, fæðuöryggis og lýðfræðilegra breytinga. Stuðla á að auknum rannsóknum til þess að afla upplýsinga, svo hægt verði að vanda ákvarðanatöku.

En hvað með Ísland? Hvernig er Ísland í stakk búið til að takast á við áskoranir, sem eru e.t.v. nokkra áratugi fram í tímann? Ef við leyfum okkur að hugsa nokkra áratugi fram í tímann (eins og sagt er að Kínverjar geri!) eru þá til einhverjar hugmyndir um það, jafnvel áætlanir, hvernig þessi 320.000 manna þjóð (árið 2012) ætlar að taka á þessu stóra verkefni?

Alþingi Íslendinga samþykkti í mars í fyrra þingályktun um „stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.“

Í henni er rætt um að efla og styrkja Norðurskautsráðið, tryggja stöðu Íslands sem strandríkis, að efla skilning á hugtakinu „norðurslóðir,“ byggja á hafréttarsáttmálum Sameinuðu þjóðanna, styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar (er Kína inni í því þá?), styðja réttindi frumbyggja, vinna gegn loftslagsbreytingum, gæta öryggishagsmuna, að auka þekkingu og innlent samráð um málefni norðurslóða og svo framvegis.

Það er gott að Ísland sé búið að mynda sér stefnu. Þó hún sé ekki nema 12 atriði. Mjór er margs vísir, segir jú máltækið.

En það sem er vert að velta fyrir sér, er það hvort landið hafi efnhagslega burði til þess að framkvæma og innleiða þessa stefnu?

Væri e.t.v. betra að sækjast eftir auknu samstarfi við ESB á þessu sviði og þannig verða aðili að öflugasta starfi á þessu sviði á heimsvísu? ESB er öflugasti aðilinn á heimsvísu, sem berst gegn loftslagsbreytingum. Þær eru viðurkenndar sem staðreynd þar á bæ, en ekki dregnar í efa, eins og t.d. af áhrifmiklum mönnum í Bandaríkjunum.

Í skýrslunni sem vitnað er í hér að fram segir að ESB sé reiðubúið að auka samstarf við þá aðila sem málið snertir.

Fari svo að Ísland verði aðili að ESB, er hér að mínu mati komið eitt sviðið, þar sem Ísland gæti leikið lykilhlutverk í framtíðinni. Í góðu samstarfi við aðrar þjóðir sem málið snertir. Hitt er sjávarútvegur,  verndun og skynsamleg nýting fiskistofna. Um það verður ekki rætt frekar í þessari grein.

Hvort tveggja eru þetta hinsvegar atriði sem skipta eyjuna úti í miðju Atlantshafi gríðarlegu máli. Breytingarnar eru að gerast og við verðum að bregðast við þeim. Of seint í rassinn gripið, verður einfaldlega of seint í rassinn gripið! Látum það ekki henda okkur. Hugsum langt fram í tímann, að hætti Kínverja