Umræðan um ESB aðild kosti hennar og galla virðast vekja upp hræðslu við breytingar, þjóðernisrembing og ofsafengin viðbrögð sérhagsmunahópa. Þeir þola ekki að bent sé á hvaða hag við hefðum að samstarfi við önnur Evrópulönd. Þeir þora ekki að láta reyna á samninga við ESB og vilja að tryggja óbreytt ástand í efnahags-og stjórnmálum þjóðarinnar.

Ein helsta orsök Hrunsins var sú að hingað flæddi ódýrt lánsfé sem átti að ávaxtast á okurvöxtum á Íslandi. Uppgjör bankana á árinu 2008 leit vel út m.a. vegna gengishagnaðar. Hefði þjóðin haft nothæfa mynt í stað krónunnar, árin fyrir hrun, hefði líklega hvorugt átt sér stað. “Lífskjarabatinn” sem rekja má til óeðlilega sterks gengis krónunnar hefði ekki orðið. Íslenskur almenningur býr við stökkbreytingar á skuldum og um 25 þús. heimili liggja í valnum. Á meðan ekkert slíkt gerðist á hinum Norðurlandanna.

Kostnaðurinn íslendinga við að hafa krónuna kemur fram í hærri vöxtum hér á landi og verðtryggingu, því enginn fjármagnseigandi, hvorki innlendur né erlendur vill lána krónur án verðtryggingar. Skoðum kostnað við 20 milljón króna íbúðarláni hér á landi annarsvegar og í öðru Evrópulandi:

Dæmi um lán á Íslandi.

Íbúðarlán hjá Íbúðarlánasjóði 20 milljónir til 25 ára með 5% vöxtum verðtryggt.

Endurgreiðsla, vextir, verðbætur og annar kostnaður 64,2 milljónir króna.

Dæmi um lán í Evrópulandi innan ESB.

Íbúðarlán hjá evrópskum banka 20 milljónir til 25 ára með nú 3,79% til 4,24% vextir, en mjög fjölbreytileg kjör eru í boði og finna mátti hagstæðari kjör en þessi.

Endurgreiðsla, vextir og annar kostnaður kr. 32,6 milljónir króna. Engar verðbætur.

Mismunurinn er 31,6 milljónir króna eða að meðaltali 105 þúsund krónur á mánuði, hvern mánuð í 25 ár.

Mest munar þar um að verðbætur á tímabilinu eru 29,1 milljón eða 9,1 milljón króna umfram upphaflegan höfuðstól lánsins.

Verðbólgan hefur alltaf verið mun hærri hér en markmið stjórnvalda/Seðlabankans hafa verið. Síðustu 20 árin hefur meðaltals verðbólga verið rúmlega 4,5% á meðan verðbólgumarkmið Seðlabankans hafa verið 2,5%. Verðbólgan hefur því verið ca. 80% hærri að meðaltali en markmið stjórnvalda/Seðlabankans hafa verið. Þetta segir allt sem segja þarf um stjórn efnahagsmála á síðustu tveim áratugum.

Skatturinn á íslenskt heimili við að koma sér upp meðalstóru húsnæði og fjármagna með íslensku krónunni er um 30 milljónir króna umfram það sem gerist annarsstaðar á Norðurlöndunum. Mismun sem heimilin hefðu til annarra nota, sparnaðar, neyslu eða fjárfestinga og þannig væri efnahagslífið sterkara um leið og heimilin væru betur sett fjárhagslega. Það er fjárhagslega, mesta hagsmunamála heimila og fyrirtækja í landinu, að losna við krónuna og taka upp aðra mynt sem ekki þarf 3-5% vaxtaálag og verðtryggingu sér til viðhalds.

Árið 2005 gerðu Neytendasamtökin könnun á vöxtum á húsnæðislánum í tíu Evrópulöndum. Ef miðað er við að greiddir séu 2% raunvextir er endurgreiðsla 40 ára láns um 1,5 sinnum höfuðstólinn. Séu vextir 4% er endurgreiðslan tvöfaldur höfuðstóll að raunvirði og ef þeir eru 6% þá er endurgreiðslan 2,7 sinnum upprunalegt lán.

Þetta þýðir að endurgreiðsla á íslensku láni er næstum tvöfalt hærri en í samanburðarlöndunum og er þó ekki tekið það tilvik þar sem mestu munar. Lánakostnaður er því tvö til þrefalt meiri á Íslandi en í samanburðarlöndum.

Miðað við 20 milljón kr. lán þýðir 2% munur 400 þús. kr. mismun á ári, sem 4% þýðir að Íslendingar greiða 800 þús. kr. meira en erlendi húskaupandinn. Á mánuði er munurinn 33 – 66 þúsund krónur á mánuði sem samsvara 45 – 90 þúsund fyrir skatta. Þetta samsvarar 15 – 30% launahækkun, ef miðað er við algeng laun.