Framvinduskýrsla framkvæmdastjórnar ESB um Ísland og aðildarviðræðurnar við ESB, sem kynnt var á dögunum, er nú fyrirliggjandi í íslenskri þýðingu og verður kynnt áhugasömum á hádegisfundi í Evrópustofu, Suðurgötu 10, þriðjudaginn 13. nóvember 2012.

Í skýrslunni er farið yfir stöðuna á Íslandi eins og hún blasir við Evrópusambandinu. Þar kemur m.a. fram að Ísland er vel undirbúið fyrir aðild að ESB þegar á heildina sé litið og samningsviðræður gangi vel. Ísland uppfylli sem fyrr pólitísk skilyrði fyrir Evrópusambandsaðild og þar sé virkt markaðshagkerfi.

Kynningu á skýrslunni annast þeir Henrik Bendixen, yfirmaður Evrópusviðs hjá sendinefnd ESB á Íslandi og Sveinbjörn Hanneson, sérfræðingur á upplýsingasviði hjá sendinefndinni.

Fundurinn, sem hefst kl. 12, er öllum opinn og eru léttar hádegisveitingar í boði.