Já Ísland sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í morgun:

Fréttatilkynning
13. september 2013

 

Vonbrigði

Samtökin Já Ísland lýsa furðu á vinnubrögðum utanríkisráðherra þegar hann leysir upp samninganefndina við Evrópusambandið. Hann vanvirðir bæði vilja Alþingis og gefin fyrirheit um að þjóðin ákveði framhaldið.

Skorað er á háttvirt Alþingi að grípa fram fyrir hendurnar á utanríkisráðherra.

Samtökin Já Ísland lýsa miklum vonbrigðum með ákvörðun utanríkisráðherra að leysa upp samninganefnd Íslands um aðild að ESB á meðan svokallað hlé stendur á viðræðum. Vonbrigðin eru ekki síðri með að ekki virðist eiga að standa við loforð um að þjóðin verði spurð um framhald viðræðna.

Samtökin Já Ísland telja að ráðherrann lítilsvirði þingsályktun Alþingis um aðildarviðræðurnar frá því 2009 með því að bera ekki undir þingið þennan viðsnúning í þessa stóra hagsmunamáli.

Allar kannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar vill ljúka viðræðum og enn fleiri vilja taka ákvörðun um framhald aðildarviðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þann þjóðarvilja hunsar ráðherra.

Samtökin Já Ísland skora á háttvirt Alþingi að grípa fram fyrir hendurnar á utanríkisráðherra í þessum efnum og taka þegar í stað ákvörðun um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna. Hún verði sem fyrst.

Tímann fram að atkvæðagreiðslunni á að nýta til þess að gera víðtæka úttekt á hagsmunum Íslands í tengslum við aðild eða ekki aðild að ESB. Um gerð þeirrar úttektar þarf að ríkja sátt og sem flestir hagsmunaaðilar að koma að henni. Á grundvelli slíkrar úttektar getur þjóðin ákveðið framhaldið.

Nánari upplýsingar:
Jón Steindór Valdimarsson
formaður Já Ísland
jaisland@jaisland.is
sími; 662 1217

Fréttatilkynningin á pdf formi