Ég segi já vegna þess að ég vil vera fullgildur þátttakandi í þeirri tilraun sem Evrópusambandið er til að takast á við mörg erfiðustu viðfangsefni samtímans og framtíðarinnar: umhverfisvána, afleiðingu alþjóðavæðingarinnar og endursköpun lýðræðisins.

Mér finnst það niðurlægjandi staða fyrir Ísland að vera eingöngu með það sem kallað er faxaðild að hluta Evrópusamstarfsins. Við tökum þegjandi við því sem kemur frá Brussel en höfum engan vettvang til þess að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar eru teknar.

Ég segi já vegna þess að ég vil sjá Íslendinga ganga hnarreista til samstarfs við helstu nágranna- og viðskiptaþjóðir okkar um ákveðinn afmarkaðan þátt í lífi Evrópu. Þá getum við tekið af enn meiri krafti á því sem okkur finnst mikilvægast: að skapa gott, réttlátt og menningarlegt samfélag.